Segir takmarkanir geta varað næstu árin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óljóst hvernig framhaldið verður.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óljóst hvernig framhaldið verður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki útilokað að takmarkanir muni vara að einhverju leyti næstu árin.

Spurður hvort engin skýr leið sé út úr faraldrinum, nú þegar lagðar eru til aðgerðir þrátt fyrir bólusetningar, og hvort við gætum verið á leið í takmarkanir af og á næstu fimm, tíu eða fimmtán árin segir hann:

„Það getur alveg verið svo, það getur enginn sagt með vissu hvernig framtíðin verður. Það er það sem við höfum alltaf verið að segja líka, að það er ekki fyrirsjáanleiki í þessu. Það er ekkert nýtt og margir kvarta yfir því að það sé ekki hægt að koma með fyrirsjáanleika í aðgerðum og slíku en það er ekki hægt þegar veiran er ófyrirsjáanleg og það kemur eitthvað nýtt upp á sem breytir því sem maður hélt fyrir einhverjum mánuðum síðan.“

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag að Þórólfur hyggst leggja minnisblað fyrir heilbrigðisráðherra um aðgerðir innanlands til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Þar sagði Þórólfur að kórónuveirufaraldrinum ljúki ekki hér á landi fyrr en honum ljúki um heim allan. Þá sagði hann vernd bóluefna gegn smiti minni en talið var þó að vernd gegn alvarlegum veikindum sé talin vera um 90 prósent.

Aðgerðir taki gildi eins fljótt og hægt er

Þórólfur telur að aðgerðirnar sem hann leggur til ættu að taka gildi eins fljótt og hægt er. „Ég tel að ef menn ákveði sig um ákveðnar aðgerðir þá sé ekki eftir neinu að bíða. Þá held ég að menn eigi að láta það taka gildi eins fljótt og mögulegt er,“ segir hann.

Þá kom fram á upplýsingafundinum að þeir sem bólusettir voru með Janssen muni fá aðra bólusetningu sem og þeir sem hafa ef til vill ekki svarað bólusetningu nægilega vel. Bóluefni Pfizer verður líklega notað og segir Þórólfur að nægt magn af því sé til á landinu.

Virkni efna Janssen og Moderna óljós

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að bóluefni Pfizer sé með tæplega 90 prósent virkni við veikindum af völdum veirunnar og bóluefni Astra Zeneca tæplega 70 prósent.

Þórólfur segir sams konar upplýsingar ekki vera til staðar um bóluefni Janssen og Moderna.

„Það eru færri rannsóknir á bak við Janssen- og Moderna-bóluefnin. Ástæðan er kannski sú að þau eru bara miklu minna notuð. Rannsóknirnar eru mismunandi uppbyggðar, sumar eru byggðar upp með lyfleysu og svo bóluefninu og aðrar eru að kanna áhrifin af bólusetningu í þjóðfélaginu. Þetta eru mismunandi nálganir og þess vegna eru niðurstöðurnar oft svolítið mismunandi frá einstaka löndum.

Ég held að það sé óhætt að segja það að flestar niðurstöðurnar benda til þess að þessi bóluefni séu öll svona svipuð í grunninn, þótt það sé aðeins munur á milli rannsókna, og virknin gegn því að fólk taki smit sé kannski í kringum 60 prósent. Það þýðir það að 40 prósent geta enn þá tekið smit.

Svo er virknin gegn alvarlegum veikindum kannski um 90 prósent en þetta er bara breytilegt og það eru líka að koma nýjar upplýsingar frá Ísrael um að virknin sé sennilega eitthvað minni en þetta.“

Þá segir hann að ekki liggi fyrir ítarlegri greining á niðurstöðunum frá Ísrael, svo sem um það hversu margir voru bólusettir eða á hvaða aldri þeir sem veiktust alvarlega voru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert