Prófessor við læknadeild Harvard háskóla segir að sú staða sem nú er komin upp, þar sem bólusettir hafa verið að greinast smitaðir af kórónuveirunni í miklum mæli, eigi ekki að koma á óvart. Hann telur ólíklegt að þjóðfélagið geti lifað undir sóttvarnaaðgerðum til margra ára og segir einkennilegt að grípa eigi til aðgerða innanlands miðað við bólusetningarhlutfallið.
„Mér finnst sérstakt að það komi á óvart að smit séu að koma upp hjá bólusettu fólki. Þessi staða var fyrirsjáanleg,“ segir Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard háskóla. Legið hafi fyrir frá áramótum að bóluefnin eru ekki með 100% virkni, heldur veiti í mesta lagi 90% til 95% vernd gegn veikindum.
Líta verði til þess að harðar takmarkanir voru í gildi í allan vetur en nú séu engar takmarkanir í gildi og því viðbúið að smit greinist. Delta-afbrigðið virðist dreifast hraðar en á sama tíma sé erfitt að meta slíkt þar sem útbreiðslan stjórnast af takmörkunum. Þá telur Jón einkennilegt að farið sé í hertar aðgerðir í ljósi bólusetningarhlutfalls Íslendinga, sem er nokkuð hátt.
„Það hefur legið ljóst fyrir frá áramótum að þessi bóluefni eru ekki 100% virk, þau hindra ekki veikindi fyllilega. Bestu tölurnar voru 90%-95% en aðrar rannsóknir sýndu 60% virkni,“ segir hann. Þá bendir Jón á rannsókn New England Journal of Medicine, sem leiði í ljós sambærilega virkni bóluefna Astra Zeneca og Pfizer, eftir tvo skammta, gegn delta-afbrigðinu annars vegar og breska afbrigðinu hins vegar.
„Ég ætla að auglýsa eftir langtímastrategíu. Nú er búið að spila út trompinu sem var bólusetning, hvað nú – takmarkanir til margra ára? Ég held að þjóðfélagið geti ekki höndlað það,“ segir Jón að lokum.