Gagnrýnir nýja launahækkun þingmanna

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Laun þingmanna hækkuðu þann fyrsta júlí um ríflega 75 þúsund krónur eða 6,2%. Þannig er þingfarakaupið nú  í 1.285.411 krónur en var 1.101.194 krónur í upphafi kjörtímabilsins. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fjallar um málið í grein á vefsíðunni sinni.

Björn bendir á að frá því í upphafi kjörtímabils hafi launin hækkað um 16,7%. Daginn eftir kosningar árið 2016 samþykkti kjararáð að hækka þingfarakaup um 44% en áður höfðu laun þingmanna hækkað töluvert hægar en laun annarra opinberra starfstétta.

Gerir ekki athugasemd við aðferðarfræðina

Kjararáð var síðar leyst upp og síðan þá hafa laun þingmanna hækkað í takt við meðtalhækkun reglulegra launa starfsmanna ríkisins á árinu áður. Björn gerir ekki athugasemdir við þessa aðferð og fagnar fyrirsjáanleikanum.

Honum þykir hins vegar upphæð launanna sjálfra umdeilanlega þar sem þingmenn fái laun sem eru á pari við regluleg laun yfirmanna og hátt launaðra sérfræðinga: „Ég er ekkert endilega viss um að það sé rétt viðmið, en á móti kemur að þingmannastarfið getur verið endalaust og er algerlega án yfirvinnu,“ segir Björn.

Hann endar færslu sína á því að segja tilefni til að endurskoða þingfarakaupið með hliðsjón af afstöðu almennings um málið. Björn rekur þar niðurstöður könnunar sem hann lagði sjálfur fram um málið árið 2018 þar sem einungis 20,5% svarenda sögðust ánægð með þingfarakaupið eins og það var þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert