Liðsfélagar Gylfa vilji að hann verði nafngreindur

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Leikmenn Everton hafa kallað eftir því að liðsfélagi þeirra sem sakaður hefur verið um brot gegn barni og heimildir mbl.is herma að sé Gylfi Sigurðsson, verði nafngreindur af félaginu. 

Frá þessu greina miðlarnir Mirror og The Sun

mbl.is greindi frá því á þriðjudag að Gylfi hefði verið handtekinn grunaður um brot gegn barni. Hann hafi síðan verið látinn laus gegn tryggingu og að húsleit hafi verið gerð heima hjá honum fyrr í mánuðinum. Samkvæmt götublöðunum The Sun og Daily Mail dvelur Gylfi nú í skjólhúsi með sólarhringsgæslu. 

Þá greindi The Athletic frá því að Fabien Delph, liðsfélagi Gylfa hjá Everton, sé öskuillur yfir því að félagið hafi ekki greint frá því með skilmerkilegri hætti að hann væri ekki leikmaðurinn sem hefði verið handtekinn vegna gruns um brot gegn ólögráða einstaklingi. 

Delph og Gylfi eru einu 31 árs leik­menn liðsins en í til­kynn­ingu frá lög­regl­unni í Manchester var greint frá því að sá grunaði væri 31 árs og kvænt­ur. Hvor­ug­ur þeirra flaug með liðinu til Banda­ríkj­anna á æf­inga­mót í síðustu viku en Evert­on hef­ur þegar greint frá því að Delph hafi verið í sótt­kví fyr­ir brott­för.

Síminn hætti ekki að hringja 

Gylfi hefur ekki verið nafngreindur af breskum fjölmiðlum af lagalegum ástæðum. 

Nú greinir The Sun frá því að einhverjir leikmenn Everton hafi farið þess á leit að stjórnendur félagsins bindi enda á orðróm í kringum félagið með því að nafngreina Gylfa. 

Leikmönnunum hafi enn fremur verið bannað að hafa samband við Gylfa og að spennan innan liðsins fari vaxandi. Einn leikmaður á að hafa „verið brjálaður yfir því að hafa fengið fimm símtöl“ frá Gylfa. Leikmennirnir séu ekki ánægðir með að hafa verið dregnir inn í málið. 

„Reyndir leikmenn Everton hafa fengið símtöl nótt sem dag frá öðrum stjörnum ensku úrvaldsdeildarinnar sem vilja upplýsingar,“ hefur The Sun eftir heimildamanni sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka