Mjótt á milli feigra og ófeigra flokka

Úr þingsal.
Úr þingsal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir ráðherrar falla út af þingi, formaður stjórnmálaflokks er í fallhættu og þingflokksformaður fellur af þingi ef skoðanakönnun, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is, gengur eftir.

Eins og sjá má verða töluverðar breytingar á þingheimi til samræmis við það, nýir þingmenn ná kjöri og gamlir ekki.

Áður hafa hér í blaðinu verið kynntar niðurstöður könnunarinnar fyrir landið allt, en ef svör úr einstökum kjördæmum eru umreiknuð í þingsæti samkvæmt kosningalögum, breytist staðan eilítið, þannig að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vinna hvor sinn manninn, en Samfylking og Píratar gefa einn eftir hvor.

Það þýðir að ríkisstjórnin héldi velli með 33 þingmönnum, þó að meirihlutinn geti tæplega orðið naumari fyrir lífvænlega ríkisstjórn.

Kosningakerfið á Íslandi er frekar flókið miðað við hve fáir þingmennirnir eru og kjördæmin fá. Og ekki verður það einfaldara við það að flokkarnir eru svo margir.

Lög kveða á um reiknireglur varðandi þingmannafjölda kjördæma, hvernig jöfnunarsætum er útdeilt og þar fram eftir götum. Eins og kjósendur þekkja frá fyrri kosningum þarf lítið að breytast til þess að hrófla við jöfnunarsætum, sem getur haft víðtæk áhrif.

Mikil óvissa

Rétt er að ítreka að þessir útreikningar og nafnaskráin að ofan eru ekki föst í hendi. Til þess að reikna út þingmenn eftir kjördæmum er miðað við kjörsókn í síðustu kosningum, en ekkert er gefið um að hún verði svipuð í öllum kjördæmum eða nokkru í haust. Eins munar sums staðar svo litlu að ekki þarf nema nokkur atkvæði til eða frá í einu kjördæmi til þess að breyta stöðunni mikið og langt út fyrir það kjördæmi. Sérstaklega auðvitað ef það verður til þess að einn eða fleiri flokkar falli af þingi, sem gæti vel gerst. Samkvæmt skoðanakönnuninni eru þrír flokkar rétt fyrir ofan 5% þröskuldinn, sem áskilinn er, og þeir flokkar eru ekki endilega að bítast um sama fylgi.

Ekki síður þarf svo að hafa í huga að svörin í könnuninni í hverju kjördæmi eru færri en svo að unnt sé að halda því fram að niðurstaðan sé nákvæm. Að því leyti má kalla þingmannatalið að ofan samkvæmisleik, en gefur þó nokkra hugmynd um hvað kunni að vera í spilunum eftir rúma tvo mánuði. Þau verða ekki einföld með níu flokka á þingi.

Ráðherrar í hættu

Eins og sjá má ná framsóknarmenn engum manni inn í Reykjavíkurkjördæmunum samkvæmt þessu. Þá eru tveir ráðherrar úr leik, þau Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, sem augljóslega væri mikil blóðtaka fyrir flokkinn ef það gengi eftir.

Varla yrðu sjálfstæðismenn kátari með að missa Birgi Ármannson, þingflokksformann sinn, af þingi eins og þessar tölur benda til, þótt hann hafi raunar sérstakt lag á að lukkast inn á þing.

Sömuleiðis er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í hættu í Norðausturkjördæmi, er ekki kjördæmakjörinn en kemst að sem uppbótarmaður. Ef hann félli hins vegar af þingi myndi flokkurinn falla með honum. Jafnvel þó svo jöfnunarsætið nýttist annars staðar yrði Miðflokkurinn ekki samur án hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert