Rak tána í og datt á trýnið

Guðný var flutt til aðhlynningar á HSA á Egilsstöðum.
Guðný var flutt til aðhlynningar á HSA á Egilsstöðum. Ljósmynd/Birna Blöndal.

„Ég var bara í gönguferð. Þar var blæðing í malbikinu á kafla og smásteinar höfðu límst fastir í bikinu. Ég rak tána í einn steininn og datt beint á trýnið,“ sagði Guðný Gunnþórsdóttir á Borgarfirði eystri. „Ég braut tennur, fékk góðan skurð á hökuna og brot við axlarliðinn.“

Fólk kom henni strax til hjálpar. „All þorpið var komið hér í kringum mig. Þetta var viðburður dagsins, skal ég segja þér,“ sagði Guðný. Sjúkrabíll flutti hana á HSA á Egilsstöðum. Þar voru saumuð níu spor í hökuna og búið um handlegginn.

„Þetta er allt á góðri leið,“ sagði Guðný og var hin hressasta. „Við hringdum í Vegagerðina, rifum kjaft og skömmuðum þá. Þeir komu og eru búnir að laga þetta. Voru snöggir að því. Það er búin að vera svo mikil blíða að malbikið bara bráðnar.“

Guðný er ekki hætt að fara í gönguferðir, enda allt í lagi með fæturna. „Ég er mjög hress. Maður lætur ekki svona smámuni fara með sig,“ sagði Guðný sem er á 83. ári.

Hitarnir ollu blæðingum

„Við höfum því miður lent í því í þessum hitum undanfarið að það hafa verið blæðingar á vegum,“ sagði Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar. Reynt hafi verið að bregðast strax við með því bera efni á þar sem blæðir.

Klæðning er á veginum inni í þéttbýlinu á Borgarfirði eystri. Það voru viðgerðir blettir sem fóru því miður að blæða þar, að sögn Sveins. Hann sagði mjög leitt að þetta hefði valdið óhappinu. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert