Hópur ungmenna hefur undanfarin tvö kvöld setið um hóp barna sem gistir Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla, vegna þátttöku sinnar í knattspyrnumótinu Rey Cup.
Frá þessu greinir Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri mótsins, í tilkynningu til íbúa hverfisins á Facebook.
„Þetta eru einstaklingar á aldrinum 18-20 ára og hafa þeir eyðilagt marga hluti. Þeir eru að kasta eggjum inn í skólana og í þá. Eggin eru að lenda á ferðatöskum, dýnum og fötum keppenda,“ skrifar Gunnhildur þar.
„Það versta er að börnin hafa einnig orðið fyrir þessari eggjaskothríð.“
Í samtali við mbl.is segir hún að ekkert þessu líkt hafi komið upp áður, eftir því sem hún komist næst. Hringt hafi verið á lögreglu en hópurinn náð að komast undan.
„Þetta gengi er á bíl og er skipulagt í sinni starfsemi,“ skrifar hún á Facebook.
Lögreglu hefur verið tilkynnt um málið og hafa upptökur úr eftirlitsmyndavélum verið færðar henni til skoðunar.
„Það ríkir mikil ókyrrð meðal keppenda og foreldra þar sem hópurinn er ógnandi og er þetta því orðið að lögreglumáli.“