Áfram púlsandi virkni í gosinu

Hraun flæðir í Meradali.
Hraun flæðir í Meradali. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Óróinn er uppi núna en dettur svo niður aftur annað slagið með mislöngu stoppi inn á milli,“ segir Bjarki Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is um virkni eldgossins í Geldingadölum. 

Hann segir að síðustu þrjá daga hafi óróinn sést í um 15 klukkustundir í senn. „Gosið er ekkert rosalega reglulegt,“ segir hann en bætir þó við að það sé púlsandi virkni í því. 

Á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands kom fram í fyrradag að hraunrennsli gosstöðvanna færi minnkandi sem gæti bent til þess að farið sé að síga á seinni hlut­ann í gos­inu. 

„Þegar óróinn er uppi þá ná gusurnar varla upp úr gígbarminum sjálfum,“ segir Bjarki en nefnir þó að á vefmyndavélum sjáist að mikið hraun flæði niður í Meradali en lítið renni í Nátthaga.

Bjarki segir að ekki sé hægt að meta hvort að gosinu sé að ljúka út frá þessari virkni, „gosið er bara í gangi enn þá og við höldum áfram að fylgjast með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert