Engin fleiri smit hafa greinst á Rey Cup-fótboltamótinu síðan tvö lið voru send í sóttkví eftir að keppandi greindist smitaður á fimmtudag. Vegna nýrra sóttvarnareglna sem taka gildi á miðnætti verður engin verðlaunaafhending í ár.
Síðasti dagur mótsins er á morgun en Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri mótsins, segir nýjar sóttvarnarreglur ekki hafa mikil áhrif á framgang síðasta dags þess.
„Verðlaunaafhendingin raskast aðeins þannig að hún verður með sama hætti og í fyrra. Því verður engin eiginleg athöfn heldur verða verðlaunin afhent í lok leiks,“ segir Gunnhildur. Hún segir mótið annars hafa gengið gríðarlega vel, sérstaklega í gær og í dag.