Fjóla skákaði Þorsteini í oddvitakjöri

Fjóla Hrund Björnsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.
Fjóla Hrund Björnsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Samsett mynd

Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, sigraði í ráðgefandi oddvitakosningu Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar laut í lægra haldi Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður flokksins.

Kosning fór fram í gær og í dag og lauk henni klukkan 17 síðdegis í dag.

Kjörsókn var 90% og hlaut Fjóla 58% atkvæða en Þorsteinn 42%. Þau voru þau einu sem gáfu kost á sér í ráðgefandi kosningu um oddvitasæti.

Þegar mbl.is óskaði eftir því að fá upplýsingar um hve margir greiddu atkvæði í kjörinu, sagði Hólmfríður Þórisdóttir, aðstoðarmaður þingmanna Miðflokksins, að það yrði ekki gefið upp. Sömuleiðis yrði ekki gefið upp hve margir hafi verið á kjörskrá. 

Niðurstöðurnar hafa verið sendar uppstillingarnefnd kjördæmisins og verður framboðslisti lagður fyrir félagsfund Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður, þar sem greidd verða atkvæði um listann. Fundurinn fer fram á mánudag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert