Á miðnætti munu aftur taka gildi samkomutakmarkanir en 26. júní var öllum takmörkunum innanlands aflétt. Takmarkanirnar sem taka gildi á miðnætti og gilda til og með 13. ágúst eru eftirfarandi:
Þá segir í minnisblaði sóttvarnalæknis að stefnt sé að því í ágúst að bjóða þeim sem bólusettir hafa verið með bóluefni Janssen seinni bólusetningu. „Þótt markaðsleyfi sé fyrir einum skammti þessa bóluefnis er líklegt að skammt tvö þurfi til að veita betri vörn. Einnig verður einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál boðinn þriðji skammtur bóluefnis en líklegt er að tveir skammtar veiti ekki nægilega góða vörn gegn Covid-19 hjá þessum hópi.“
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu í viðtölum við mbl.is þegar takmarkanirnar voru kynntar að um þær ríkti samstaða og að uppsveiflan í faraldrinum hefði ekki áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðurkenndi þó í samtali við mbl.is að einhver hiti hefði verið á ríkisstjórnarfundinum sem stóð yfir í þrjár klukkustundir í gær.
„Þarna fóru fram mjög hreinskilnar og góðar samræður. Þetta eru ekkert auðveldar ákvarðanir sem þarf að taka, það er mikilvægt að gefa sér tíma í að taka þær,“ sagði Katrín.
Á landamærunum tekur gildi ný reglugerð á miðnætti á þriðjudaginn. Frá og með þeim tíma þurfa allir bólusettir einstaklingar eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu sem koma til Íslands að framvísa ekki eldra en 72 klst. gömlu neikvæðu Covid-prófi, PCR eða antigen (hraðprófi), þegar komið er um borð í flugvél erlendis.
Áfram þurfa óbólusettir einstaklingar að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana. Börn fædd 2005 eða síðar verða áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum.
Frá 28. febrúar árið 2020 hafa greinst 7.148 smit á Íslandi og 30 hafa látist af völdum veirunnar. 12. mars árið 2020 sendi sóttvarnalæknir fyrsta minnisblað sitt til heilbrigðisráðherra vegna faraldursins. Þá höfðu 122 greinst með Covid-19.
Fjórum dögum síðar, 16. mars, tóku fyrst í gildi samkomutakmarkanir hér á landi. Þá var 100 manna samkomubann, framhalds- og háskólar voru lokaðir og nálægðartakmörk miðuðust við tvo metra. Eftir þetta fyrsta minnisblað hafa samkomutakmarkanir flakkað á milli þess að vera frá 10 í allt að 500 á rúmlega 16 mánuðum.
Þórólfur hefur sagt að ekki sé útilokað að takmarkanir muni vara að einhverju leyti næstu árin og að faraldrinum ljúki ekki fyrr en honum lýkur alls staðar.