Útför Þórunnar Egilsdóttur þingkonu fór fram í Vopnafjarðarkirkju í dag. Þórunn lést 9. júlí eftir baráttu við krabbamein. Hennar var minnst af samferðafólki sem leiðtoga, staðfastrar konu sem hafði húmorinn að leiðarljósi við sín störf. Þuríður Árnadóttir sóknarprestur jarðsöng.
Þórunn settist á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013 og gegndi formennsku þingflokksins árin 2015 og 2016, síðan aftur síðan árið 2018.
Hún sat sem 2. varaforseti þingsins 2015 til 2016 og sem 1. varaforseti þingsins árin 2016 til 2017.
Þórunn fæddist þann 23. nóvember 1964 í Reykjavík, dóttir Egils Ásgrímssonar bólstrara og Sigríðar Lúthersdóttur. Þórunn skilur eftir sig eiginmann sinn, Friðbjörn Hauk Guðmundsson, og þrjú börn; Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.
Þórunn lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1984 og prófi frá Kennaraháskólanum árið 1999. Hún vann sem sauðfjárbóndi frá árinu 1986 til ársins 1999 þegar hún tók við starfi sem grunnskólakennari. Hún sat í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps árin 2010 til 2014, þar af sem oddviti frá 2010 til 2013.
„Þórunn Egilsdóttir var einn þeirra stjórnmálamanna sem teljast til héraðshöfðingja. Hún var öflugur talsmaður sinna hugsjóna og sinna kjósenda,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og flokksbróðir Þórunnar, í færslu á Facebook þegar fréttir af andláti Þórunnar bárust.
„Þórunn kom til dyranna eins og hún var klædd. Fannst látalæti óþarfi en húmor mjög mikilvægur. Hún var fyndin, klár, góður samstarfsfélagi, heilsteypt og hlý.“
Það sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, flokkssystir Þórunnar og þingkona, um vinkonu sína. Hún segir að þakklæti hafi verið henni efst í huga þegar hún frétti af andláti hennar.
„Það var gott og öruggt að fylgja og njóta leiðsagnar hennar sem þingflokksformanns þegar ég settist á þing. Þó var best að hlæja með henni og njóta vinskapar sem var sannur.