Tveir starfsmenn Landspítala og einn inniliggjandi sjúklingur greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær. Í kjölfarið fór af stað umfangsmikil rakning sem leiddi til þess að tveir sjúklingar og níu starfsmenn voru settir í sóttkví A og 11 starfsmenn í vinnusóttkví C.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítala.
„Uppákomur af þessu tagi, þ.e. að smit greinist óvænt inni í starfseminni eru verulegt áhyggjuefni nú þegar veiran hefur náð mikilli útbreiðslu og tugir smitaðra eru utan sóttkvíar við greiningu,“ segir í tilkynningunni.
Þar er brýnt fyrir starfsfólki að það skuli fara í skimun ef það finnur fyrir einkennum.
Fjórir eru nú inniliggjandi á Landspítala veikir af Covid-19. 461 er í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 41 barn. Níu starfsmenn eru í einangrun, 15 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru nú 242.