Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun gervigrasvalla knattspyrnufélaganna Vals og Þróttar.
Fram kemur í greinargerð um- hverfis- og skipulagssviðs að um sé að ræða endurnýjun á gervigrasi á keppnisvelli Vals á Hlíðarenda samkvæmt samkomulagi Knattspyrnufélagsins Vals og Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarráði 4. júní 2015.
Núverandi gervigras var tekið í notkun í október 2016 og fyrirséð að það uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt samkomulaginu um úttektir á næsta keppnistímabili. Ekki þarf að endurnýja fjöðrunarlagið sem er undir gervigrasinu. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 80 milljónir króna.
Þá kemur fram í greinargerðinni að boðnar verði út framkvæmdir við nýja gervigrasvelli í Laugardal ásamt endurbótum á aðalvelli Knattspyrnufélagsins Þróttar. Þær eru í samræmi við samkomulag um flýtingu framkvæmda við gervigrasvelli fyrir Þrótt sem samþykkt var í borgarráði 3. júní síðastliðinn. Kostnaðaráætlun er 830 milljónir króna.
sisi@mbl.is