Veitingahús sleppa vel en barir róa aftur lífróður

Eftir fjórar haftalausar vikur taka að minnsta kosti þrjár erfiðar …
Eftir fjórar haftalausar vikur taka að minnsta kosti þrjár erfiðar vikur við fyrir bareigendur landsins. Eggert Jóhannesson

Þær sóttvarnaráðstafanir sem ríkisstjórnin kynnti í gær hafa fremur lítil áhrif á rekstur veitingastaða en gífurleg áhrif á bari og skemmtistaði. Rekstrargrundvöllur margra öldurhúsa er klukkustundirnar eftir miðnætti.

„Þetta bitnar langmest á börunum. Þar er búið að skerða afgreiðslutímann mjög mikið,“ segir Óli Már Ólason bar- og veitingahúsaeigandi. Hann segir reglurnar breyta litlu fyrir veitingahús: „Á flestum veitingastöðum er eldhúsinu lokað á bilinu tíu til ellefu og fólk tínist út svona um og í kringum miðnætti. Það munar samt um hvern klukkutíma svo það væri betra að mega hafa opið til eitt.“

Missa fjóra og hálfa klukkustund á föstudögum og laugardögum

Aðra sögu er hins vegar að segja um barina. Afgreiðslutími þeirra er styttur um klukkustund hvern virkan dag og fjórar og hálfa klukkustund um helgar. „Það er verið að skerða þá langmest. Við missum þarna mjög svo dýrmætan tíma þar sem mestu tekjurnar koma inn. Rekstrargrundvöllur flestra bara er þessir klukkutímar eftir miðnætti um helgar.“

Óli rekur fjölda veitingastaða og kráa, meðal annars Kol, Bastard, English Pub, Irishman pub, Kalda og Lebowski bar. 

Mikill erill var í miðborginni fyrstu helgina eftir að samkomutakmörkunum …
Mikill erill var í miðborginni fyrstu helgina eftir að samkomutakmörkunum var aflétt í júní. mbl.is/Ari

Endurmönnunin gæti reynst þungur baggi

Hann segir reglurnar koma á sérlega slæmum tíma svo stuttu eftir að öllum höftum var aflétt með tilheyrandi mönnunarþörf. Nýlega hafi allt starfsfólk verið endurráðið til að standa næturvaktirnar og lofað vinnu sem nú er ljóst að ekki verður af. „Við erum búin að lofa fólki fullt af vinnu sem við getum síðan ekki veitt,“ segir Óli.

Þá segir Óli ákveðið samspil milli skemmtistaða og veitingahúsa sem nú hafi raskast. „Þetta er svolítið öðruvísi allt saman, fólk fer oft út að borða og skellir sér síðan á barinn. Það munar rosalega um að hafa einn eða tvo klukkutíma eftir miðnætti svo fólk geti komið sér á milli staða,“ segir Óli. 

Sem stendur mega 100 manns að hámarki vera í hverju sóttvarnahólfi á skemmtistöðum, börum og veitingastöðum. Gestum er skylt að skrá persónuupplýsingar við komu til að einfalda smitrakningu og vínveitingar má einungis bera til sitjandi gesta. Staðir mega hleypa gestum inn til klukkan 23 en þurfa að loka á miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert