„Meginreglan er ekki grímuskylda“

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Almennt er ekki grímuskylda í verslunum, nema ef þar er illa loftræst eða ef erfitt er að halda eins metra nálægðartakmörkum, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Samt sem áður mælast verslunareigendur margir hverjir til þess að kúnnar þeirra beri grímu í verslunum.

Ekki hefur öllum þótt nægilega skýrt í hvaða aðstæðum skuli bera grímu og hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra jafnvel sagt almenna grímuskyldu í verslunum við lýði. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur þó alveg skýrt að samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra sé ekki almenn grímuskylda í verslunum. 

„Meginreglan er ekki grímuskylda. Grímuskyldan er bara til staðar, samkvæmt ótvíræðu orðalagi reglugerðarinnar, ef númer eitt ekki er hægt að tryggja fjarlægðarmörk, eða númer tvö ekki er um næga loftræstingu að ræða. Það er bara eins skýrt og það getur verið,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.

„Fyrir alla sem lesa reglugerðina, fyrir alla sem skilja hvernig lagatexti er, er þetta alveg skýrt. Vandinn er bara hjá stjórnvöldum, að geta ekki komið þessu skýrar frá sér en raun ber vitni. Svo hefur Svandís Svavarsdóttir sent upplýsingar frá sér á Twitter þar sem hún segir grímuskyldu í búðum. Það gerir þetta hálfu verra.“

Í þriðja sinn sem reglur eru óskýrar

Andrés segir matvöruverslanir þó biðja sína viðskiptavini að bera grímu, þótt það sé ekki skylda. 

Allar matvöruverslanir beina þeim tilmælum til viðskiptavina sinna að vera með grímu. Það eru eingöngu tilmæli því það er ekki stætt á því að gera þetta að skyldu eins og reglugerðin er orðuð núna.“

Andrés segir að í þrígang hafi tilmæli stjórnvalda vegna sóttvarnaaðgerða ekki verið nægilega skýr. 

„Þetta er í þriðja sinn sem reglur og reglugerðir í kringum Covid eru ekki nægjanlega skýrar og valda ruglingi. Við erum bara boðin og búin að vinna með stjórnvöldum að lausn þess vanda sem við er að glíma. Eina krafan sem við gerum er að skýrleiki þeirra reglna sem við vinnum eftir sé ótvíræður.“

RÚV ræddi fyrst við Andrés.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert