Bæði farsóttarhús Rauða krossins eru orðin full og stefnt er á að opna þriðja farsóttarhúsið í kvöld við Skúlagötu, þar sem Hótel Barón er til húsa. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna, segir vanta fleira starfsfólk. RÚV greindi fyrst frá.
„Það vantar töluvert af starfsfólki. En við erum að reyna bæta úr því núna eins hratt og mögulegt er. Við erum að nýtast við það starfsfólk sem er búið að vera að sinna ferðamönnunum í skimunarsóttkví, þar eru um 200 ferðamenn. Þannig að við erum með í heildina hátt í 400 manns sem við erum að sinna,“ sagði Gylfi við mbl.is.
Hann segir mikið álag vera á starfsfólki farsóttarhúsanna.
„Á meðan við þurfum að taka á móti ferðamönnum í skimunarsóttkví er erfitt að spá fyrir um fjölda sóttvarnahúsa. Við erum á hverjum tíma hátt í 200 ferðamenn hjá okkur. Ef ferðaþjónustan er til í að taka þann bolta myndi það hjálpa okkur mikið.“