Viðar Eggertsson hefur tekið að sér ýmis hlutverk um ævina. Ævi hans hófst á vöggustofu þar sem börn fengu enga andlega örvun. Þar þurfti hann að berjast fyrir tilverurétti sínum og nú meira en sex áratugum síðar berst hann enn, nú fyrir réttindum eldri borgara og fátækra.
Gosmóða og þéttur úði litaði höfuðborgina gráa daginn sem blaðamaður fór til fundar við leikhúsmanninn og, ef allt fer að óskum, tilvonandi stjórnmálamanninn Viðar Eggertsson. Við mælum okkur mót á Klömbrum Bistro á Kjarvalsstöðum, því fallega húsi. Viðar mætir nokkrum mínútum of seint, en hafði látið vita af því, því hann segir það í eðli sínu að mæta of snemma í allt og segist vera óstundvís að því leytinu. Við fáum okkur kaffi og endum inni í barnahorni þar sem við getum spjallað í friði og ró frá skarkala kaffihúsgesta.
Viðar hefur lifað viðburðaríku lífi en hikar ekki við að stíga inn í ný hlutverk, þótt hann sé kominn á þann virðulega aldur, 67 ára. Hann á nóg eftir og vill gjarnan nota næsta æviskeið til að berjast fyrir betri kjörum fyrir eldri borgara, listamenn og fólk sem fast er í fátæktargildru.
Nýlega hefur mikið verið fjallað um málefni vöggustofa sem starfræktar voru á árunum 1949-1973 í borginni. Nú á að fara að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Viðar og tvíburasystir hans hófu lífsgönguna á vöggustofu. Við hefjum spjallið á upphafinu; á fátækri konu sem ól tvíbura sem hún gat ekki alið önn fyrir.
„Ég var óvænta barnið sem enginn átti von á,“ segir Viðar, en hann fæddist á fæðingardeild Landspítalans árið 1954 og var seinni tvíburinn til að líta dagsins ljós.
„Systir mín fæddist á undan og svo var sagt að annað væri á leiðinni,“ segir Viðar og segir að móðir sín hafi ekki vitað að hún gengi með tvíbura.
Móðir hans, Hulda Kristinsdóttir, hafði þá nokkru áður flutt að norðan, frá Akureyri til Reykjavíkur til að freista gæfunnar í höfuðborginni, en hún átti fyrir einn dreng sem varð eftir hjá ömmu sinni fyrir norðan.
„Á þessum tíma var samfélagið allt öðruvísi og lítil sem engin félagsleg hjálp eða velferðaraðstoð, hvað þá fyrir einstæða móður sem bjó í einu herbergi. Hún stóð þá í þeim sporum að vera einstæð móðir með tvö ungabörn og hún einsetur sér að koma sér þaki yfir höfuðið,“ segir Viðar og segir að til þess hafi hún þurft að vinna lengi og safna fé. Ekki hafði hún efni á barnapössun og fáar leiðir voru færar og brá hún þá á það ráð að setja tvíburana á vöggustofu við Hlíðarenda þegar börnin voru aðeins sautján daga gömul. Móðir hans fékk vinnu á Keflavíkurvelli og fékk húsnæði hjá vinnuveitanda sínum.
„Það dregst á langinn að hún nái að safna nógu miklum peningum fyrir útborgun í íbúð og við ílengdumst þarna,“ segir Viðar, en þau systkinin voru á vöggustofunni í tvö og hálft ár, lengst allra barna sem þar hafa dvalið.
„Mamma kom á hverjum sunnudegi að heimsækja okkur, en á þessum tíma var Keflavíkurvegurinn holóttur og tók tvo tíma að keyra aðra leið. Hún fékk ekki að fara inn í herbergið til okkar heldur stóð fyrir utan og horfði á okkur í gegnum stóran glugga. Börnunum, sem voru í stórum járnrimlarúmum, var ekið að glugganum, en ekkert annað var í herbergjunum en rúmin. Það var svo mikið hreinlæti þarna að ekki einu sinni myndir héngu á veggjum og ekkert dót var þarna; það gæti safnað ryki,“ segir Viðar og segir allan mat hafa verið maukaðan og að börn lærðu ekki að borða sjálf heldur voru ávallt mötuð.
„Börnin fóru aldrei út nema á mestu góðviðrisdögum og þá voru þau keyrð út í rúmunum. Við fórum aldrei út að leika. Við lærðum að labba en vorum ótalandi þegar dvölinni lauk en ég og systir mín höfðum komið okkur upp einhverju tungumáli. Við gátum skilið hvort annað,“ segir Viðar og bætir við að á einhvern hátt hafi hann fengið betra atlæti en hún og líklega verið í uppáhaldi hjá starfskonunum.
„Mér tókst einhvern veginn að skera mig úr; að slá í gegn. Ég var svolítið uppáhald og það var stundum haldið á mér,“ segir Viðar og segist sjálfur ekkert muna en heyrði af því seinna þegar hann árið 1993 vann útvarpsþátt byggðan á þessari reynslu, en áherslan var á reynslu móður hans. Viðar segir það hafa tekið móður sína mörg ár að rifja upp þennan tíma og ljóst var að hún hefði grafið þessar slæmu minningar svo djúpt að hún mundi í byrjun lítið sem ekkert frá þessum tíma.
„Ég fékk móður mína til að segja frá í þessum þætti. Það tók hana þrjú ár að muna. Fyrst mundi hún alls ekki neitt, þetta var grafið ofan í dýpstu sálarkytrur. Svo fór að brotna upp og minningarnar að koma til baka og þá fór að rofa til,“ segir Viðar og segir að móðir sín hafi grátið þegar minningarnar flæddu upp á yfirborðið.
„Loks þremur árum eftir að ég fyrst bað hana að segja frá hringdi hún í mig og sagði: „Nú er ég tilbúin“,“ segir hann og bætir við að á þessum tíma hafi verið svo mikil stéttaskipting og hugsunin þannig að fátækt fólk ætti að kenna sjálfu sér um og skammast sín fyrir fátækt sína og stöðu.
Loks þegar móðirin hafði safnað nóg til þess að kaupa húsnæði fór hún og sótti börnin, en á heimilinu bjó einnig vinkona hennar sem hjálpaði til með börnin, enda engir leikskólar í boði.
„Hún fór einmitt með mömmu að sækja okkur og ég hafði upp á henni fyrir þáttinn því mig vantaði sjónarvott að þeim atburði. Hún lýsti því þannig að við hefðum verið eins og dýr í búri. Við töluðum ekki og enginn mátti snerta okkur, og sértaklega ekki systur mína sem hafði nánast aldrei verið snert,“ segir Viðar og segir að það sé ekki að undra að mörg börn sem þarna dvöldu hafi skaddast verulega á sál og líkama.
„Við viljum vita hvað gerðist. Svo er annar hluti sem þarf að fara ofan í saumana á og sem ég vissi lítið um fyrr en núna, og það eru ættleiðingarnar sem áttu sér stað frá þessum vöggustofum. Þær virðast hafa verið á mjög hæpnum forsendum og það hafa komið inn sögur um konur sem voru í veikri stöðu sem áttu börn sem gefin voru til ættleiðingar. Það kemur þarna fólk sem beinlínis velur sér börn og er jafnvel með skilarétt á þeim. Fólk valdi sér barn og gat svo skilað því ef það var ekki sátt og fengið annað. Þetta var eins og verslunargluggi; þarna stóðu mæðurnar en einnig fólk sem var að velja sér barn. Siðferðið í því ferli er mjög vafasamt og mæðurnar oft settar í óbærilega stöðu og látnar skrifa undir pappíra, jafnvel fárveikar. Það er þetta sem við viljum fá upp á yfirborðið. Fá að vita hvað raunverulega gerðist. Þetta er hluti af sögunni og ég vil fá svar við spurningunni: „Hvernig hefur þessum börnum reitt af?“ Hvaða áhrif hefur dvölin haft á líf þeirra? Ég veit um dæmi um fólk sem hefur verið öryrkjar allt sitt líf, allt frá útskrift af vöggustofu. Við viljum líka fá uppreist æru fyrir þessar fordæmdu mæður,“ segir Viðar og segir þá alls ekki vera að leita að bótum í formi peninga.
Enn á ný hefur Viðar tekið stefnuna á nýtt hlutverk, en hann skipar þriðja sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.
„Ég varð loksins 67 ára um daginn, löggilt gamalmenni eins og það var kallað. Ég hef verið í æfingabúðum sem eldri borgari í nokkur ár en ég hef verið að skoða mál eldra fólks; líka til að undirbúa mig fyrir þetta tímabil í lífinu,“ segir Viðar en hann hefur starfað með Gráa hernum og verið í stjórn Félags eldri borgara. Síðustu tvö árin hefur Viðar verið í hálfu starfi hjá Landssambandi eldri borgara.
„Það eru fáir sem hafa æft sig jafn vel,“ segir Viðar og hlær.
Hvað er til ráðs?
„Við þurfum að hækka grunnlífeyrinn. Það er sjálfsagt að hafa tekjutengingar en þær nái þá ekki til láglaunafólks. Fólk á ekki að vera neytt til að lifa undir opinberu framfærsluviðmiði. En þannig virka skerðingarnar í dag. Þetta er kynslóðin sem ber harm sinn í hljóði og vill oft ekki opinbera bága stöðu sína. Ég hugsa oft um hvers vegna fólk í þessari stöðu fer svo og kýs stjórnmálaflokka sem eru ekkert að hugsa um hag þeirra; flokka sem eru beinlínis að viðhalda stéttaskiptingunni. En rétt fyrir kosningar verða allir mjög velferðarsinnaðar, eins og úlfar í sauðargæru, og allt í einu sest þetta fátæka fólk niður í kaffi á kosningaskrifstofum með fína fólkinu og er þá orðinn hluti af því, án þess að verða það nokkurn tímann. Það er svo sorglegt þegar maður sér það. Ég segi við fólk: „Kjóstu með sjálfum þér! Vertu ekki að hjálpa stéttaskiptingunni. Spyrðu sjálfan þig hver sé líklegastur til að vinna að þínum málum,“ segir Viðar.
„Réttlætistilfinning hefur einkennt líf mitt. Ég hef séð svo marga sem eru á hriplekum bátum í lífinu og það þarf ekki að vera þannig. Ég býð mig fram og er í þriðja sæti, sem kallast baráttusæti og finnst það gott; baráttumaður í baráttusæti. Ég vildi komast á þann stað á listanum að ég væri með rödd; að ég gæti sett mitt fingrafar á stefnu flokksins um þau mál sem eru mér hugleikin. Það skiptir mig miklu máli að fara inn í innsta hring. Mínum málefnum var mjög vel tekið og fólk sammála að hafa þau á stefnuskrá,“ segir Viðar sem byrjar þá nýjan starfsferil ef hann kemst inn á þing, og það jafnvel þótt hann sé kominn langt á sjötugsaldur.
„Eins og ég segi; ég leik mörg hlutverk í lífinu. Mér finnst ég vera kominn aftur til upprunans. Barnið sem fæddist í þessa stöðu, sem tókst að brjótast út úr henni, er nú komið í ræðupúltið að krefjast réttlætis. Ekki bara fyrir sig, heldur allt þetta fólk. Það er ekki náttúrulögmál að ákveðinn þjóðfélagshópur verði undir,“ segir Viðar.
Við förum að slá botninn í samtalið en blaðamaður spyr að lokum hvernig Viðar sjái fyrir sér framtíðina. Ég hlakka til að breytast. Ég er haldinn þroskadýrkun, sem er andstæðan við æskudýrkun, og ég er að reyna að innleiða hana. Ég segi að það sé eftirsóknarvert að eldast og þroskast, að vera eitthvað annað en maður var áður. Ég er búinn að vera yngri, nú langar mig að verða eldri. Ég er að fara inn á nýtt æviskeið. Lífið er svo ófyrirsjáanlegt og maður verður að vera opinn fyrir nýjum áskorunum,“ segir Viðar.
„Þegar ég var ungur stóð ég eitt sinn fyrir framan spegil og horfði á þetta andlit sem var svo gjörsamlega ómarkað lífsreynslu, eins og óskrifað blað. Mér fannst það svo ömurlegt; mig langaði svo að bera þess merki að ég hefði lifað. Ég reyndi að krumpa á mér andlitið því mig langaði í lífsreynslu en vissi ekki að hún var áunnin. Hrukkur eru í raun heiðursmerki lífsins og maður þarf að vinna fyrir hverri og einni þeirra. Þarna var ég ekki búinn að því en mér lá svo á.“
Nú eru komnar nokkrar hrukkur. Ertu þá ánægður með þær?
„Já, ég er búinn að hafa fyrir þeim. Þetta hefur kostað mikla vinnu að koma mér upp þessari lífsreynslu og bera þess merki að ég hafi lifað. Ég játa, ég hef lifað.“
Ítarlegt viðtal er við Viðar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.