„Þetta hefði getað gerst hvar sem er“

Úr opnunarveislu Bankastrætis Club í upphafi mánaðar.
Úr opnunarveislu Bankastrætis Club í upphafi mánaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstur skemmtistaðarins Bankastrætis Club hefur gengið vel hingað til en Ásthildur Bára Jensdóttir, rekstarstjóri staðarins, segist enn eiga eftir að taka ákvörðun um næstu vikur í rekstrinum. Hún segir fréttaflutning af smituðum starfsmanni staðarins ekki hafa fælt fólk frá klúbbnum.

„Okkar fyrstu viðbrögð voru að reyna að kortleggja hvernig reksturinn okkar yrði næstu vikur með slíkar takmarkanir í gildi. Þetta voru auðvitað erfiðar fréttir enda nær ómögulegt að reka skemmtistað með eins metra reglu þar sem rekstrargrundvöllurinn okkar snýr að mestu leyti að því að fólk geti dansað við lifandi tónlist,“ segir Ásthildur í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Treysta ríkisstjórninni til að taka réttar ákvarðanir

Staðurinn var opinn um helgina en rekstrarfyrirkomulag næstu vikna er nú til umræðu.

Ásthildur segir þau þurfa að geta treyst ríkisstjórninni til að taka réttar ákvarðanir til að tryggja öryggi þjóðfélagsins en viðurkennir að staðan sé erfið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur greint frá því í fjölmiðlum að upphaf nýrrar bylgju innanlandssmita megi rekja til „skemmtistaða í Bankastræti“ og Lundúnaferða. Ásthildur segir þetta ekki hafa haft teljandi áhrif á reksturinn: „Fólk veit það jafn vel og við að þetta hefði getað gerst hvar sem er og núna erum við reynslunni ríkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert