„Ég átti alveg eins von á þessu en auðvitað kemur niðurstaðan manni alltaf á óvart þegar maður vinnur,“ segir Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Miðflokksins, innt eftir viðbrögðum við niðurstöðum úr oddvitakjöri Miðflokksins í Reykjavík suður.
Í kosningunni um oddvitasætið hafði Fjóla betur gegn Þorsteini Sæmundssyni með 58% atkvæða gegn 42%. Þau voru þau einu sem gáfu kost á sér í ráðgefandi kosningu um oddvitasæti. Skákaði Fjóla þar með sitjandi þingmanni og oddvita listans sem sóttist hart eftir því að halda oddvitasætinu.
Fjóla, sem er aðeins 33 ára býr að talsverðri reynslu af stjórnmálastörfum þrátt fyrir ungan aldur, reynslu sem hún segir muni koma sér vel í nýja hlutverkinu.
„Ég byrjaði fyrst í stjórnmálum 2013 þegar ég var varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn og starfaði líka fyrir Framsóknarflokkinn í um þrjú ár. Fyrir um þremur árum síðan kem ég svo inn í Miðflokkin og er búin að starfa sem framkvæmdastjóri þingflokks síðastliðin þrjú ár.“
Aðspurð segir Fjóla af nægum málum að taka inni á þingi. Hún segist þó sérstaklega vilja berjast fyrir málefnum ungs fólks.
„Málefnalega séð eru rosalega mörg mál sem brenna á bæði landsmönnum öllum og flokksmönnum. Ég held að það vanti svona fulltrúa unga fólksins inn á þing og það eru málefni unga fólksins sem ég er að hugsa um ásamt samgöngumálum og heilbrigðismálum.“
Innt eftir því segist Fjóla bjartsýn á að Miðflokkurinn nái mönnum inn á þing í Alþingiskosningunum í haust enda sé nægur tími til stefnu enn þá. Miðflokkurinn rétt mælist inni á þingi miðað við nýjustu skoðanakannanir.
„Við erum ekki komin með okkar kosningastefnuskrá. Við erum með landsþing í ágúst þar sem við getum unnið alveg gríðarlega góða vinnu í málefnunum okkar. Ég held að þegar málefnin okkar eru komin fram og þegar listarnir eru allir tilbúnir og allt þetta kemur saman þá munum við ná góðri kosningu í haust,“ segir hún að lokum.