Brekkusöngurinn, sem hefur verið fastur liður Þjóðhátíðar, verður nú streymisviðburður. Þetta segir í tilkynningu á vef Senu live.
„Það gleður okkur að geta staðfest að fyrirhuguð dagskrá kvöldsins fer að fullu leyti fram þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Um verður að ræða beina útsendingu frá ótilgreindum stað, sem við kynnum síðar, en leitast verður við að fanga sem best anda Þjóðhátíðar og hina óviðjafnanlegu stemningu í Eyjum,“ segir í tilkynningunni.
Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari og gítarleikari Stuðlabandsins, mun stýra brekkusöngnum þetta árið.
Síðar í dag er að vænta tilkynningar frá þjóðhátíðarnefnd um hvort hátíðinni verður aflýst í ár eða frestað um nokkrar vikur. Í tilkynningu á dalurinn.is segir: „Endurgreiðslur og/eða flutningur á miðum mun fara fram gegnum „mínar síður“ inni á dalurinn.is þegar þar að kemur.“