Baldur Arnarson
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, væntir ekki mikilla átaka þegar endurskoðunarákvæði lífskjarasamningsins virkjast í haust.
„Maður veit ekki hvernig stemningin verður með haustinu eða hver staðan á faraldrinum verður. Á þessari stundu er ekki mikil stemning, hvorki í samfélaginu né innan verkalýðshreyfingarinnar, fyrir átökum eða aðgerðum sem auka á óvissu í þjóðfélaginu samhliða fjölgun smita. Það er mitt mat, en þetta getur breyst hratt og það mun fara eftir stemningunni hjá okkar félagsmönnum og í samfélaginu hver afstaða okkar verður til þessarar endurskoðunar í haust,“ segir Ragnar Þór um stöðuna.
„Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og stóru félaganna munu setjast niður og meta stöðuna út frá því hversu mikil áhrif vanefndir ríkisstjórnarinnar munu hafa á kjarasamningana. Þá munum við meta hin hagrænu áhrif faraldursins, ekki aðeins á Íslandi heldur í heiminum öllum, og hvort þau séu farin að ganga til baka,“ segir Ragnar Þór í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.