Bóluefnaframleiðendur eru í „kappakstri“ við kórónuveiruna, að sögn sérfræðings á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, sem segir nauðsynlegt að taka mið af lægra bólusetningarhlutfalli í löndunum í kringum Ísland þegar gripið er til aðgerða. Hún segir bóluefnin mun betri en hægt var að búast við fyrir ári en veiran sé lúmsk.
71 kórónuveirusmit greindist innanlands í gær, þar af 53 hjá fullbólusettum einstaklingum.
„Þessi bóluefni eru eiginlega betri en okkar villtustu draumar síðasta árs gátu þorað að vona. Í veruleikanum sem við búum við núna með svona útbreiddan faraldur þar sem eru að koma fram ný afbrigði á örfárra mánaða fresti sem virðast enn meira smitandi en það síðasta – þá er þetta bara skotmark á hreyfingu. Við sjáum ekki nægilega vel fyrir til þess að geta þróað bóluefni fyrir fram þannig að bóluefnaframleiðendurnir eru í kappakstri við veiruna, að vera með nýjustu útgáfuna af þessu S-prótíni,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, í samtali við mbl.is.
„Því miður er alveg möguleiki á því að veiran haldi áfram að breyta því prótíni nógu mikið til þess að mótefnin sem við myndum gegn veirunni þekki hana ekki eins vel en sem betur fer benda rannsóknir til þess að þó það sé mögulega einhver aðeins minni virkni að þá með útbreiddum bólusetningum dragi nægilega mikið úr smitunum til að það náist upp víggirðingar gegn frekari útbreiðslu.“
Kamilla segir mikilvægt að gleyma því ekki að ef hundruð smita berast til landsins á stuttu tímabili sé veiran fljót að dreifa sér innanlands, jafnvel með bólusettum einstaklingum.
„Við þurfum ekki bara að horfa á okkar eigin bólusetningarstöðu heldur einnig landanna í kringum okkur, landanna sem fólk fer til og kemur frá. Í þeim löndum er bólusetningarhlutfallið ekki jafn hátt og hér. Á meðan staðan er þannig í löndunum í kringum okkur munum við áfram vera með streymi [af smitum] yfir landmærin og okkar aðgerðir, bæði á landamærum og hér innanlands, þurfa að taka mið af því.“
Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um það að örfáar endursýkingar Covid-19 hafi komið upp, þ.e. að nokkrir einstaklingar sem smituðust af kórónuveirunni fyrir einhverju síðan hafi nú smitast af Delta-afbrigði veirunnar.
Aðspurð segir Kamilla að endursýkingar hafi ekki komið fram hjá bólusettum einstaklingum sem smituðust fyrir bólusetningu.
„Það hefur ekki gerst enn. Við vorum bara að mæla með bólusetningu þeirra sem voru með sögu um Covid núna í lok júní. Þannig að það eru ekki nema örfáar vikur síðan þeir fengu þá bólusetningu. Líkurnar á því að þau smitist núna, fyrst þau smituðust ekki fyrst eftir bólusetninguna, eru frekar litlar. Við vitum ekki hvað gerist ef við verðum enn í þessu ástandi sem við erum í núna í október. Þá gætum við mögulega farið að sjá það en maður vonar samt ekki.“
Hvers vegna eru litlar líkur á því að þessi hópur smitist núna?
„Vegna þess að það er svo nýbúið að örva þau er smithættan í raun minni. Við höfum meiri áhyggjur af þeim sem fengu Janssen og hafa aldrei verið útsettir fyrir Covid vegna þess að þeir eru þá í rauninni bara með einn skammt af bóluefni sem er í sjálfu sér ekki frábrugðið einum skammti af einhverju öðru bóluefni hvað virkni varðar, þótt markaðssetningin hafi verið öðru vísi. Svo er spurning með þessa ónæmisbældu einstaklinga eða þessa allra viðkvæmustu, eða þá sem vinna við þær aðstæður að útsetning þeirra er meiri en annarra, eins og heilbrigðisstarfsfólk í framlínu. Þetta eru hópar sem við erum að skoða hvort og hvenær væri viðeigandi að örva.“