Kærulausi lottóspilarinn loks fundinn

Lottó
Lottó

„Hann var rólegur og yfirvegaður vinningshafinn í lottóinu sem kom við í afgreiðslu Getspár í dag með fyrsta vinning upp á 54,5 milljónir króna,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Miðinn var keyptur fyrir um einum og hálfum mánuði á N1 í Mosfellsbæ og hefur síðan þá verið reynt að hafa uppi á manninum sem ekki hefur skilað árangri fyrr en nú.

Maðurinn, eða „kærulausi lottóspilarinn“ eins og hann kallar sig, fékk um daginn lánaðan síma hjá félaga sínum til að skanna nokkra lottómiða sem hann hafði keypt. Þá kom vinningurinn í ljós.

Hann segist raunar heppinn að hafa ekki týnt miðanum en mjóu mátti muna að hann týndi veskinu sínu um daginn. 

„Það hafði dottið út úr bílnum hjá mér og ég tók bara eftir því fyrir tilviljun.“

Faðir hans vann líka

Kærulausi lottóspilarinn er ekki sá fyrsti í fjölskyldunni til þess að vinna mikið fé í lottóinu því faðir hans vann 1. vinning árið 1993.

Hann hefur ekki enn ákveðið í hvað hann mun nota milljónirnar en sagði að hluti þeirra færi örugglega til góðgerðarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert