„Menn finnast vanalega ekki“

Hinn svokallaði „flöskuháls“ á K2, 290 metra hár ísveggur.
Hinn svokallaði „flöskuháls“ á K2, 290 metra hár ísveggur. Ljósmynd/Kári G. Schram

Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður vonast til þess að lík Johns Snorra Sigurjónssonar sé meðal þeirra sem fundist hafa á K2 í dag, eins og líklegt þykir. 

„Það væri gott ef þeir finnast því menn finnast vanalega ekki,“ segir Kári, sem fylgdi fjall­göngu­mann­in­um John Snorra áleiðis upp á fjallið árið 2017. 

Kári lýsti því hvernig hann var í þeirri ferð að finna lík jafnvel frá sjöunda og áttunda áratugnum. „Hendur með hringum og stígvél með beinum, jökullinn spýtir þessu út smátt og smátt.“ Pakistanarnir eru vanir að koma líkunum fyrir í sprungum og hylja þau þannig, að sögn Kára.

Flöskuháls er á Abruzzi Spur leiðinni á tind K2. Ísveggurinn …
Flöskuháls er á Abruzzi Spur leiðinni á tind K2. Ísveggurinn er 400 metrum fyrir neðan tindinn en fjallgöngufólk þarf að skáskera um 100 metra af ístindum til þess að komast yfir ísvegginn sem er í 8.200 metra hæð. Hallinn er um 50-60 gráður og þetta er hættulegasti hluti leiðarinnar. Flestir þeirra sem hafa farist á K2 hafa látist í og við Bottleneck. Ljósmynd/Wikipedia.org/Rolf Zemp

Miðað við staðsetninguna telur Kári líklegt að um John Snorra sé að ræða. Þá sé þetta staðfesting á því hve langt þeir komust, en flöskuhálsinn er í 8.200 metra hæð og fjallið er 8.611 metrar. 

„Maður ímyndar sér að þeir séu á leið þarna upp, frekar en niður, þegar eitthvað kemur fyrir.“

Kári segist vona að líkin tvö sem ekki hafa verið borin kennsl á séu af þeim John Snorra og Ju­an Pab­lo Mohr. Það muni veita fjölskyldunni frið og svigrúm til að anda léttar, þegar staðfest verður hvernig fór fyrir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert