Rauðavatn er orðið mjög vatnslítið

Rauðavatn að þorna upp.
Rauðavatn að þorna upp. mbl.is/Árni Sæberg

Rauðavatn er nú með allra minnsta móti líkt og fleiri vötn og er um að kenna miklum þurrkum í sumar. Hilmar J. Malmquist, vistfræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, segir að Rauðavatn sé orðið verulega vatnslítið.

„Vatnasviðið er fremur lítið og þess vegna hefði maður talið að það tæki fljótt við sér við úrkomu, en það er ekki að sjá,“ segir Hilmar. Lífríkið á strandgrunninu getur farið illa ef þurrkarnir vara lengi. Lífverur sem hafast við á hörðu undirlagi, sniglar og fleiri dýr, ná ekki að forða sér þegar vatnið þornar. Hætt er við að þau drepist.

Hilmar sagði að það hafi áður gerst að vatnabobbar og aðrir sniglar, sem alla jafna eru mjög algengir í Rauðavatni, hafi mikið til horfið við lága vatnsstöðu. Þeir geta hörfað út á dýpið en þar er mýkri botn sem hentar þeim ekki.

Vatnaplantan síkjamari er áberandi í Rauðavatni. Hilmar telur að vatnið dragi nafn sitt af rauðleitum blómum hennar sem standa upp úr vatnsyfirborðinu og gera vatnið rautt yfirlitum. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert