Rúmenski maðurinn, sem grunaður er um að hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana, kom af sjálfsdáðum til landsins í kjölfar þess að lögregla náði sambandi við manninn. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Mbl.is greindi frá því fyrir viku að maðurinn væri kominn aftur til landsins, en miðvikudaginn 14. júlí var greint frá því að maðurinn hefði komist úr landi, þrátt fyrir að sæta farbanni.
Grímur segir ekki vitað hvernig manninum tókst að komast úr landi, en hann bendir þó á að maðurinn hafi ekki verið með fölsuð skilríki eða neitt slíkt.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hafði áður sagt í samtali við mbl.is að farbann sé ekki „öruggt úrræði“, en við slíkt bann eru vegabréf gerð upptæk. Þó er til að mynda hægt að ferðast til annarra landa innan Schengen-samstarfsins án vegabréfs.
Maðurinn var ásamt tveimur öðrum handtekinn nú í apríl grunaður um manndráp. Þá var hann látinn sæta gæsluvarðhaldi, en í kjölfar þess að ekki var fallist á kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald var hann settur í farbann.
Spurður hvort maðurinn sé nú í gæsluvarðhaldi sökum þess að hann hafi brotið farbann segir Grímur: „Nei, það var ákveðið að gera það ekki, það er að fara fram á kröfu um gæsluvarðhald. Hann sætir því enn bara farbanni og gerir sér betur grein fyrir því hvað það þýðir.“
Grímur segir rannsókn málsins nú miða áfram með hefðbundnum hætti.