Smit á Landspítala ekki náð að dreifa sér

Smitum á meðal starfsfólks Landspítala hefur fjölgað, rétt eins og …
Smitum á meðal starfsfólks Landspítala hefur fjölgað, rétt eins og á meðal annarra. Þá er það þungt fyrir spítalann að þurfa að senda vaxandi fjölda starfsfólks í sóttkví. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Kórónuveirusmit hafa greinst hjá starfsfólki á nokkrum deildum Landspítala og á verkefnastjóri farsóttarnefndar spítalans von á því að slík smit geti áfram komið upp næstu daga á meðan faraldurinn er í hæstu hæðum. Starfólkið hefur allt smitast úti í samfélaginu og því hafa smit, enn sem komið er, ekki náð að dreifast innan spítalans.

Strangar sóttvarnaaðgerðir eru nú í gildi á spítalanum, þeirra á meðal grímuskylda. Flestir aðstandendur sjúklinga spítalans hafa fylgt fyrirmælum vel en í nokkrum tilvikum hafa þeir tekið af sér grímuna þegar komið er inn á spítalann.

„Við höfum verið aðeins í vandræðum með það að fólk er að taka af sér grímuna þegar það kemur inn á spítalann í heimsókn. Það er ákaflega slæmt og við höfum áhyggjur af því,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar, í samtali við mbl.is.

Vilja komast hjá heimsóknabanni

Hún jánkar því að grímuskyldan og heimsóknareglur séu settar á til þess að hægt sé að komast hjá heimsóknabanni.

„Flestir fara eftir þessum reglum en hinir sem ekki gera það eru alltaf fyrirferðarmeiri. Við viljum náttúrlega forðast í lengstu lög að setja á heimsóknarbann, það er mikið inngrip en við áskiljum okkur rétt til þess að vísa fólki út ef það fer ekki eftir reglum,“ segir Hildur.

Það er farið að taka á starfsemi spítalans að starfsfólk hafi smitast og að senda þurfi sífellt fleiri í sóttkví. Hildur segir þó að lítið hafi verið um að starfsfólk hafi verið kallað inn úr sumarfríi en það hafi þó komið fyrir og einhverjir hafa jafnvel boðist til að koma til starfa í ljósi stöðunnar. 

„Svo höfum við nokkur frestað því að fara í sumarfrí en við höfum ekki verið að kalla mikinn fjölda starfsfólks inn. Við erum svona á tánum með það vegna þess að það er fólk að fara í sóttkví á spítalanum, eins og í samfélaginu. Fjöldinn allur af landsmönnum fer í sóttkví daglega og á meðan smitin eru svona útbreidd má búast við því að það haldi áfram næstu dagana. Það bítur alveg rosalega í hjá okkur. Hver einasti haus er náttúrlega alltaf alveg ótrúlega mikilvægur en ekki síst á þessum tímum núna. Þetta er hásumarleyfistíminn, vikan fyrir og eftir verslunarmannahelgi.“

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

Telja enn að varúðarráðstafanirnar dugi

Hafið þið eitthvað þurft að draga úr starfsemi spítalans?

„Ekki út af þessu. Það er bara dregið úr starfsemi eins og hægt er yfir sumartímann vegna þess að það eru færri aðgerðir framkvæmdar. Það er auðvitað erfitt að fá sumarafleysingar, það eru margir nemar og óreynt starfsfólk hjá okkur, sem stendur sig reyndar alveg gríðarlega vel núna. Það er svona hefðbundið – sumarstarfsemi spítalans er öðruvísi en við erum ekki farin að draga úr starfsemi vegna þessa beinlínis.“

Hildur segir að enginn hafi smitast innan spítalans út frá þeim smitum sem hafa komið upp hjá starfsfólki. Á það t.d. við í tilviki starfsmanns bráðamóttöku sem greindist smitaður í síðustu viku. Hann var í vinnusóttkví við greiningu. Í vinnusóttkví starfar starfsfólk á spítalanum en ákveðnar umgengnisreglur gilda, starfsfólk í slíkri sóttkví þarf að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum og grímuskyldu. Þá er því óheimilt að fara á milli deilda og fer starfsfólk í vinnusóttkví ekki í matsal.

Virðist vinnusóttkvíin þá vera að virka?  

„Það hafa verið nokkur svona tilvik og það hafa engin smit greinst út frá þeim þannig að við teljum bara að þær varúðarráðstafanir sem við erum með, grímuskyldan og allar sóttvarnaráðstafanirnar, auk vinnusóttkvíarinnar, dugi. Enn þá trúum við því,“ segir Hildur.

„Það hafa greinst smit á fleiri deildum hjá starfsmönnum og við eigum von á því að það geti gerst áfram næstu dagana á meðan þetta er á svona mikilli siglingu. En við beitum alltaf sömu aðferðunum; við rekjum og setjum þá sem eru klárlega útsettir í sóttkví og þá sem eru minna útsettir í vinnusóttkví. Þannig að þetta er farið að bíta í á fleiri stöðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert