Ung börn sáust að leik ofan á Fagradalshrauni um helgina. Sjónarvottur segir foreldra barnanna, sem eru erlendir ferðamenn, ekki hafa brugðist vel við þegar hann gerði athugasemd við leik barnanna.
„Bæði börnin voru uppi á hrauninu um tíma eins og þetta væri leikvöllur og foreldrarnir skemmtu sér við að horfa á þau leika sér, þarna vottaði líka fyrir gasmengun,“ segir Sverrir Kristfinnsson sem var á svæðinu.
Um helgina sást einnig ungt par gangandi á hrauninu með ungbarn á bakinu.
Lögreglan á Suðurnesjum og björgunarsveitir á svæðinu hafa ítrekað varað við því að gengið sé á hrauninu því það sé lífshættulegt. Rauðglóandi hraun kunni að leynast undir þunnu lagi storknaðs hrauns.
„Ekki þarf að fjölyrða um hversu hættulegt athæfi þetta er. Algjörlega er óvíst hvort nýstorknað yfirborð hrauns haldi og undir því getur verið rauðglóandi kvika. Þá er rétt að benda á að fólk er með þessu að setja björgunaraðila í algjörlega vonlausa stöðu fari hlutirnir á versta veg,“ sagði Lögreglan á Suðurnesjum í færslu um hraungöngu.