180 óbólusettir ferðamenn í farsóttarhúsum

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa á upplýsingafundi almannavarna.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segir fjölda óbólusettra ferðamanna sem taka út fimm daga sóttkví og bíði eftir seinni skimun verulega íþyngjandi fyrir starfsemina. Ferðaþjónustan mætti stíga inn og taka á móti þessu fólki. 

Gylfi segir stöðuna verulega þunga á farsóttarhúsum Rauða krossins. Um 180 ferðamenn gista í farsóttarhúsum eins og er og sambærilegur fjöldi er í einangrun.

„Það sem hamlar okkar starfi er að við erum með töluverðan fjölda af ferðamönnum sem eru í fimm daga sóttkví. Óbólusettir ferðamenn sem gætu verið annars staðar, ef hótelin vildu taka við þeim. 180 manns sem gætu verið annars staðar,“ segir Gylfi.

Stjórnvöld bjóða óbólusettum ferðamönnum að gista á farsóttarhúsum Rauða krossins á meðan þeir bíða eftir seinni skimun en skylda þá ekki til þess.

„Þessir ferðamenn koma til okkar vegna þess að hótelin vilja ekki þessa ferðamenn vegna þess að þeir þurfa meiri þjónustu en hinn almenni gestur vegna sóttkvíarinnar.“

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Þyrftu stjórnvöld að setja einhverja fjárhagslega hvata fyrir hótelin til þess að taka á móti þessum ferðamönnum?

„Hótel sem tekur á móti þessu fólki hlýtur að geta rukkað fyrir þá dvöl eins og hverja aðra. Mögulega þarf að sinna þeim aðeins meira en öðrum gestum, viðhalda meiri sóttvörnum og þess háttar. En þetta væri aftur á móti leið fyrir hótelin til þess að ná sér í einhvern pening.“

Rauði krossinn rekur, að sögn Gylfa, sex farsóttarhús, Þar af eitt í Neskaupstað. Nú þegar hefur Rauði krossinn hafist handa við að ráða inn nýtt starfsfólk og segir Gylfi að á bilinu tíu til tuttugu nýir starfsmenn verði ráðnir á næstu dögum. „Við erum bara í ráðningum eins og er, byrjuð að setja fólk á prufuvaktir og þess háttar.“

En hvert er bolmagn ykkar eins og er, er langt í að þetta sprengi húsnæðið?

„Þetta er alltaf við það að springa. Við erum með 60 herbergi eftir fyrir einangrun, og miðað við þróunina þá fyllast þau bara á næstu þremur til fjórum dögum. Þess vegna er orðið mikilvægt að jafnvel ferðaþjónustan komi inn og hleypi þessum ferðamönnum inn á hótelin hjá sér. Því eins og ég segi, þeir koma til okkar vegna þess að hótelin, mörg hver, vilja ekki taka við þeim. En nú hafa þeir tækifæri til þess að opna og sækja sér pening fyrir.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert