Baldur Arnarson Guðni Einarsson
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir það ekki hlutverk nefndarinnar að taka afstöðu til þess hvaða áhrif vaxtalækkanir hafi á fasteignaverð.
Tilefnið er gagnrýni Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á stjórnvöld í Morgunblaðinu í gær. Taldi hann þau hafa sýnt andvaraleysi með því að bregðast ekki við áhrifum lægri vaxta á fasteignaverð, enda væri hækkun þess áhyggjuefni.
Gylfi segir vaxtalækkanirnar hafa leitt til hækkandi eignaverðs að undanförnu. Það birtist í íbúðaverði og verði hlutabréfa og fyrir vikið hagnist efnafólk meira en aðrir.
„Þetta er hálfgerð tímasprengja af því stjórnvöld á [Vesturlöndum] hafa ekki leiðrétt eignaskiptinguna, einkum vegna óvissu um þróun farsóttar og væntanlega einnig af pólitískum ástæðum. Það er mikil óvissa um framtíðina og stjórnvöld eiga fullt í fangi með önnur mál,“ segir Gylfi.
Í umfjölun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur hann stjórnvöld geta spornað við þessum áhrifum á íbúðaverðið með því að stuðla að uppbyggingu á ódýru húsnæði.