Ekki furða að það ríki hættustig

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alma D. Möller landlæknir segir það ekki furðulegt að hættustigi hafi verið lýst yfir á Landspítalanum. Á fimmtudag í síðustu viku var tilkynnt að Landspítalinn skyldi færður yfir á hættustig. Var sú ákvörðun sögð tekin í ljósi þess að far­ald­ur­inn væri í veld­is­vexti.

Í tilkynningu frá spítalanum var tekið fram að verkefni Covid-göngu­deild­ar ykjust dag­lega, fleiri sjúk­ling­ar í eft­ir­liti væru veik­ir, fjöldi starfs­fólks í sótt­kví og mik­il óvissa um þróun far­ald­urs­ins, tíðni inn­lagna og al­var­leika veik­inda.

Þrír liggja nú inni á spítalanum með Covid-19. Einn þeirra greindist þó ekki fyrr en eftir innlögn af öðrum ástæðum.

Efla þurfi heilbrigðiskerfið og bæta þurfi húsakost

„Hættustig þýðir að unnið er eftir viðbragðsáætlun,“ segir Alma í samtali við mbl.is og bendir á að nú þegar hafi verið gerðar breytingar á starfsemi spítalans eins og með sérstakri Covid-göngudeild sem sinni nú um 700 sjúklingum.

„Landspítalinn er að missa marga, bæði í einangrun og sóttkví, því samfélagssmit er útbreitt og þetta er stærsti vinnustaður landsins.“ Alma segir að þegar þetta leggist ofan á langvarandi mönnunarvanda og hásumarleyfistíma sé ekki skrýtið að álagið sé mikið.

Að sögn Ölmu liggur fyrir að efla þurfi heilbrigðiskerfið til skemmri og til lengri tíma. Það þurfi bæði að bæta mönnun og húsakost. Sú staða sé ekki ný af nálinni en vandinn verði enn sýnilegri undir kringumstæðum sem þessum.

Skrái sig í bakvarðasveit

Alma kallaði eftir því, á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að fólk skrái sig í bakvarðasveit til þess að leggja heilbrigðiskerfinu lið.

Hún segir að það gæti þurft að styrkja mönnun við sýnatökur en gríðarlegar biðraðir hafa myndast þar á síðustu dögum. Alma bendir á að það þurfi ekki sérhæft fólk til að vinna í tengslum við skimanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert