„Við vorum að taka ákvörðun um að setja í kosningakerfið okkar tillögu um að ég yrði umboðsmaður í samningaviðræðunum í haust um ríkisstjórnarmyndun og það var bara enginn mótfallinn því,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, um félagsfund flokksins sem haldinn var fyrr í kvöld.
Á fundinum lögðu oddvitar framboðslista Pírata fyrir næstu alþingiskosningar fram erindisbréf sem veitir Halldóru Mogensen, þingkonu Pírata, umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður að loknum kosningum til Alþingis, í samræmi við tíunda kafla laga Pírata um umboðsmenn.
Halldóra segir tillöguna hafa siglt í gegn og fer því í kosningakerfið hjá grasrótinni.
„Ef grasrótin samþykkir þá verður þetta borið undir þingflokkinn og framkvæmdastjórn og ef þetta er samþykkt þar þá er ég komin með umboð.“
Halldóra segir þá að ekki hafi verið rætt mikið annað á félagsfundinum, nema lítillega um þau áhrif sem faraldurinn hefur á kosningabaráttu Pírata, „það er umræða sem á sér stað á öðrum vettvangi,“ sagði hún.