Fjölskylda Johns Snorra Sigurjónssonar, sem lést á tindinum K2 í Pakistan í febrúar síðastliðnum, þakkar fyrir „þann hlýhug, stuðning og umhyggju sem okkur hefur verið sýnd undanfarna mánuði“.
Greint var frá því í gær að þrjú lík hefðu fundist ofan við fjórðu búðir K2, en Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr voru með John Snorra í för þegar hann týndist á tindinum 5. febrúar. Talið er að um sé að ræða lík þeirra.
Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Johns Snorra kemur fram að nú hafi ákveðinni óvissu um afdrif Johns Snorra, Alis Sadpara og Juans Pablos Mohr verið eytt.
„Það er alfarið á hendi pakistanskra yfirvalda að ákveða hvort reynt verður að ná líkömum þeirra niður af fjallinu, en aðstæður á K2 eru mjög erfiðar. Það er mikilvægt að öryggi þeirra aðila sem tækju þátt í slíkum aðgerðum verði tryggt ef tekin verður ákvörðun um að flytja þá niður í grunnbúðir,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir einnig að samkvæmt upplýsingum frá Elia Saikaly, sem er nú á K2, sé staðsetning Johns og Alis fyrir ofan hinn svokallaða flöskuháls á K2 á meðan staðsetning Juans sé nærri fjórðu búðum. Miðað við aðstæður eru vísbendingar um að þeir hafi verið á leið niður af toppi fjallsins þegar þeir létust.
„Persónulegir munir, myndavélar og annar tækjabúnaður sem þeir höfðu meðferðis mun líklega varpa betra ljósi á það sem gerðist þennan afdrifaríka dag og m.a. svara þeirri spurningu hvort þeir hafi náð toppnum á K2. Stjórn þeirrar rannsóknar verður einnig á hendi pakistanskra yfirvalda og munu allar upplýsingar um niðurstöður koma frá þeim,“ segir í yfirlýsingunni.