Kalla til lögreglu vegna sandspyrnukeppni

Hjörleifshöfði.
Hjörleifshöfði. mbl.is/Jónas Erlendsson

Kvartmíluklúbburinn hefur boðað til sandspyrnukeppni á hádegi í dag við Hjörleifshöfða, en um er að ræða kvikmyndaverkefni á vegum BBC fyrir Top Gear-þátt.

Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segist í samtali við mbl.is efast um lögmæti keppninnar en stofnunin lítur ólöglegan utanvegaakstur alvarlegum augum.

Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að ef spyrnukeppni fari fram þurfi hún að fara fram á skilgreindum keppnisbrautum.

Engin beiðni borist

„Það eru mjög takmarkaðir vegir yfirhöfuð og það er skýrt í reglum að allur akstur ökutækja, hvort sem það er í keppni eða annars vegar, þarf að vera á skilgreindum vegum,“ segir Daníel og staðfestir að Umhverfisstofnun hafi ekki borist nein beiðni varðandi málið.

Hjörleifshöfðajörðin er nú í eigu einkaaðila sem hafa áformað að hefja gjaldtöku á svæðinu fyrir fyrirtæki en með gjald­tök­unni er ætl­un­in meðal annars að tak­marka um­ferð á svæðinu og stöðva ut­an­vega­akst­ur.

„Flest leyfi sem við veitum fyrir akstri utan vega eru þannig að bílarnir eru ekki sjáanlegir utan vega. Það eru til nokkur dæmi um að við höfum veitt leyfi þar sem bílar sjást utan vega, en þá þarf að koma skýrt fram að leyfi hafi fengist fyrir því. Einnig setjum við ávallt skýringu í leyfin um að leyfishafi þurfi að afmá öll för sem myndast og ganga snyrtilega frá,“ segir Daníel. 

Tvö tonn af búnaði

Fréttablaðið greindi frá því í gær að umsjónarmenn Top Gear hefðu lent á Reykjavíkurflugvelli í gær með tvö tonn af búnaði. Þar segir að mikil leynd ríki yfir verkefni þáttarins hér á landi.

Nú­verandi þátta­stjórn­endur Top Gear eru Andrew „Freddi­e“ Flin­toff, Grín­istinn Paddy …
Nú­verandi þátta­stjórn­endur Top Gear eru Andrew „Freddi­e“ Flin­toff, Grín­istinn Paddy McGu­in­nes, og bíla­blaða­maðurinn Chris Har­ris Skjáskot af Instagram

Að sögn Sigurjóns Andersen, varaformanns Kvartmíluklúbbsins, fer sandspyrnukeppnin fram á íþróttasvæði Kvartmíluklúbbsins og því samkvæmt öllum lögum og reglum, meðal annars hafi klúbburinn fengið úttekt á svæðinu frá Akstursíþróttasambandi Íslands. Á aðalskipulagi Mýrdalshrepps frá 2012 til 2028 er þó ekki neitt svæði skilgreint sem svo, né nein keppnisbraut.

Á myndum sem Kvartmíluklúbburinn setti á Facebook-síðu sína má sjá nokkuð skýrt akstur utan vega.

Færslunni hefur verið eytt af Facebook-síðu klúbbsins.
Færslunni hefur verið eytt af Facebook-síðu klúbbsins. Skjáskot af Facebook

Eftir að mbl.is hafði samband við klúbbinn voru myndirnar fjarlægðar en Umhverfisstofnun sá myndirnar og hefur kallað til lögreglu og landverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert