Ófrískum konum boðið í bólusetningu

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. Bólusetning óléttra kvenna mun …
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. Bólusetning óléttra kvenna mun ekki fara fram þar heldur á Suðurlandsbraut 34. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óléttum konum, sem eru komnar lengra á leið en 12 vikur, verður boðin bólusetning gegn Covid-19 næstkomandi fimmtudag. Er þetta gert þar sem bólusetning er talin örugg bæði fyrir konur og fóstur, sem og vegna stöðunnar á faraldrinum innanlands.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með bólusetningu óléttra kvenna og það er búið að bólusetja þúsundir óléttra kvenna í mörgum löndum. Það er búið að sýna fram á að þetta sé öruggt fyrir fóstur. Það er samt ekki mælt með því að konur fari í bólusetningu fyrr en eftir 12. viku,“ segir Margrét Héðinsdóttir, verkefnastjóri bólusetningar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Mæting eftir fæðingarmánuðum

Konurnar munu ekki fá eiginlega boðun en geta mætt í bólusetningu á Suðurlandsbraut 34 á eftirfarandi tímum:

Konur sem fæddar eru í janúar og febrúar geta mætt í bólusetningu á milli 9 og 10. 

Konur sem fæddar eru í mars og apríl geta mætt í bólusetningu á milli 10 og 11. 

Konur sem fæddar eru í maí og júní geta mætt í bólusetningu á milli 11 og 12. 

Konur sem fæddar eru í júlí og ágúst geta mætt í bólusetningu á milli 13 og 14. 

Konur sem fæddar eru í september og október geta mætt í bólusetningu á milli 14 og 15.

Konur sem fæddar eru í nóvember og desember geta mætt í bólusetningu á milli 15 og 16.  

Vísir greindi fyrst frá. 

Búið að bólusetja fjölda ófrískra kvenna

Hvers vegna er ekki búið að bólusetja óléttar konur nú þegar?

„Vegna þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld vildu vera örugg, vildu ekki vera að gera einhverjar tilraunir á barnshafandi konum, það var nóg af fólki hér sem var tilbúið í að fara í bólusetningu og reyna að mynda hjarðónæmi,“ segir Margrét. 

„Nú er staðan í samfélaginu þannig að veiran er gjörsamlega úti um allt og svo er búið að bólusetja fjöldann allan af ófrískum konum úti um allan heim. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að þær séu bólusettar og þá gerum við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert