„Þetta er áhætta sem fólkið hefur verið tilbúið að taka alveg frá byrjun en svo treystir það auðvitað líka á heiðarleika og samúð hjá Heimsferðum,“ segir Jóhanna Björk Snorradóttir, ein skipuleggjenda útskriftarferðar Menntaskólans í Reykjavík.
Menntaskólanemar sem eiga áætlaða ferð til Krítar með ferðaskrifstofunni Heimsferðum hinn 3. ágúst eru uggandi vegna þeirrar stöðu sem nú ríkir bæði hérlendis og á Krít.
Þá óskuðu bæði skipuleggjendur útskriftarferðar Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Hamrahlíð eftir fundi með ferðaskrifstofunni.
„Í rauninni var endurgreiðsla á ferðinni ekki okkar helsta markmið með fundinum við ferðaskrifstofuna heldur vorum við að taka stöðuna,“ segir Jóhanna.
„Það eru nokkrir hlutir sem hafa verið óskýrir alveg frá því í byrjun og hlutir sem Heimsferðir geta ekki svarað eins og staðan er núna, t.d. bara eins og hvað gerist ef einhver greinist með Covid bara núna á næstu dögum fyrir ferðina af því að samkvæmt lögum er honum ekki heimilt að fara. Þau hafa aldrei sagt að þau geti endurgreitt ef að sú staða myndi koma upp.“
Jóhanna segir að töluverðar áhyggjur hafi sprottið upp meðal bæði nemenda og foreldra er móðir eins útskriftarnema setti inn færslu á facebooksíðu sinni þar sem hún greinir frá ferðalöngum á Krít sem greindust smitaðir. Þar segir frá því að þeim hafi verið hent út af því hóteli sem þeir dvöldu á og þurftu að bíða í sólarhring eftir að fá að fara á sóttvarnahótel.
„Við spurðum Heimsferðir út í þetta mál og þau sögðust hafa talað við Krítverja og þau könnuðust ekkert við þetta en fólk varð mjög skelkað af því að heyra af þessu,“ segir Jóhanna.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í vikunni voru allir nemendur Flensborgarskólans sem gerðu sér ferð til Krítar til að fagna útskrift úr menntaskóla skikkaðir í sóttkví.
30 nemendur greindust smitaðir af Covid-19 við komuna til landsins en allir samferðamenn þeirra í vélinni voru einnig skikkaðir í sóttkví.
Það er þó ferðahugur í útskriftarnemunum og flestir staðráðnir í að fara í ferðina.
„Ég held að viðmótið gagnvart ferðinni sé búið að breytast ansi mikið yfir sumarið, þetta hefur farið úr því að vera djammferð í það að vera kósí ferð á ströndinni og við sundlaugina, frekar en að fólk sé að djamma alla daga og nætur,“ segir Jóhanna.
„Við erum að hvetja fólk til þess að fara í test áður en við förum út þótt þess sé ekki þörf þar sem við erum langflest, ef ekki öll, bólusett. Það er ekki miklu meiri hætta á að smitast af Covid úti á Krít en á Íslandi, það þarf bara að fara varlega.“