„Frásagnarlistin gæðir landið lífi í huga okkar,“ segir Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur og rithöfundur. „Íslendingar hafa um aldir fundið sér samastað í tilverunni með sögum. Heimspekileg hugsun hefur aldrei verið okkar sterka hlið en sagnagerðin þeim mun frekar.“
Nýlega kom út hjá Forlaginu bók Halldórs, Sagnalandið, þar sem segir frá 30 stöðum víða um land sem tengjast höfundum, bókmenntaverkum, þjóðsögum og atburðum í Íslandssögunni. Meðal annars segir frá Flatey á Breiðafirði, þar sem stendur elsta bókhlaða á Íslandi og kvikmyndir hafa oft verið teknar upp; Rauðasandi, Sjöundá og Svartfugli og Merkigili í Skagafirði þar sem bjó Mónika Helgadóttir, sem Guðmundur G. Hagalín gerði fræga með bókinni Konan í dalnum og dæturnar sjö. Sömuleiðis segir frá Skriðuklaustri Gunnars Gunnarssonar, skáldaþorpinu Hveragerði og Bessastöðum, forsetasetrinu sem nefnt er víða í bókmenntum þjóðarinnar. Myndirnar í bókinni tók Dagur Gunnarsson en saman fóru þeir Halldór um landið síðasta sumar í efnisöflun.
„Heimspekileg hugsun hefur aldrei verið okkar sterka hlið en sagnagerðin þeim mun frekar, eins og Páll Skúlason benti eitt sinn á. Hér var engin hefðbundin borgaraleg menning lengi vel, við vorum ekki framarlega í tónlist eða myndlist, en fólk gat sagt sögur eða farið með kvæði um flesta hluti, og þannig leitað átta,“ segir Halldór. „Íbúar margra Evrópulanda geta séð og skynjað sögu sína í stórkostlegri byggingarlist allt í kringum sig, við horfum á hóla og gil og segjum: það var hér sem...“
Margir staðir á landinu hafa sérstakan stað í vitund fólks fyrir sögur sem gerðust, eða þá vegna skálda og rithöfunda sem staðina sátu. Herdísarvík í Selvogi þekkjum við flest sakir þess að þar bjó stórskáldið Einar Benediktsson sín síðustu ár.
„Í Herdísarvík er í fljótu bragði ekki margt að sjá og fátt sem ferðamenn að öllu jöfnu sækjast eftir. Samt er staðurinn töfrum slunginn í okkar huga af því skáldið sem orti Útsæ eða Einræður Starkaðar bjó þar, fjarri glaumi bæjarins, síðasta áratug ævi sinnar. Við röltum meðfram fjörunni og hugsum til hans og Hlínar, sem bruggaði ofan í hann og rak sauðfjárbúskap alveg fram á sjötta áratuginn,“ segir Halldór.
Bókina Sagnalandið skrifaði Halldór að ósk þýsks forlags sem vildi bókmenntalega ferðabók um Ísland. „Þau gáfu mér alveg frjálsar hendur og þá kom mér þessi nálgun í hug,“ segir Halldór sem lýsir bókinni sem samantekt úr ýmsum áttum og hann hafi hugsað hana sem sagnaskemmtun.
„En ég reyni að krydda þetta með minningum sem ég á sjálfur um suma staðina og frásögnum um höfunda sem ég kynntist, og reyni stundum að fara í óvæntar áttir,“ segir Halldór og að lokum: „Ásbyrgi verður mér tilefni til að hugleiða kveðskap Gerðar Kristnýjar. Kleifarvatn minnir á Arnald og kalda stríðið og þar fram eftir götum. Þetta er ekkert heildaryfirlit um merkilegustu sögustaði landsins, heldur einfaldlega staðir sem ég hef sótt heim og sem tengjast einhverju í bókmenntum okkar. Suma staði leitar maður uppi bara af því maður hefur heyrt um þá svo fallegar sögur, svo sem Brettingsstaði á Flateyjardal, þaðan sem Thor Vilhjálmsson var ættaður og segir ógleymanlega frá formæðrum sínum og forfeðrum í Raddir í garðinum. Af einhverjum ástæðum finnst mér ég þá verða að líta slíkan stað augum.“