„Sumu af þessu fólki líður illa“

„Eftir því sem dögunum fjölgar og það koma ekki upp …
„Eftir því sem dögunum fjölgar og það koma ekki upp mörg tilvik alvarlegra veikinda þá er það jákvætt merki en það er enn ákveðin óvissa til staðar,“ segir Runólfur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þrátt fyrir að langstærstur hluti þeirra sem smitaðir eru af kórónuveirunni séu merktir grænir hjá Covid-göngudeild Landspítala, þá er fólk í þeim hópi sem upplifir vanlíðan vegna sjúkdómsins.

Yfirmaður Covid-göngudeildar segir að deildin hafi ekki tekið eftir alvarlegri veikindum hjá óbólusettum en bólusettum, enda séu langflestir þeirra sem eru smitaðir bólusettir. Það óbólusetta fólk sem er í eftirliti Covid-göngudeildar Landspítala er flest í yngri kantinum og hefur því staðið veikindin ágætlega af sér.

„Það er dálítið stór hópur ungs fólks smitaður. Ungt fólk hefur haft miklu minni tilhneigingu til þess að veikjast alvarlega,“ segir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala.

Þeir sem eru merktir grænir eru með væg eða lít­il ein­kenni Covid-19 en gulir með auk­in og svæsn­ari. Rauðir eru með alvarleg einkenni. Þeir þrír sem liggja á sjúkrahúsi vegna Covid-19 eru ekki taldir með í tölum Covid-göngudeildar.

Jákvætt merki en enn óvissa til staðar

18 af þeim 705 sem eru í eftirliti göngudeildarinnar eru skráðir gulir og einn rauður. Um 50 manns sem eru smitaðir eru skilgreindir í hæsta áhættuflokki, en sá hópur er síður en svo einsleitur.

„Það er mjög misjafnt hver staða þeirra er, það er meðal annars hár aldur og undirliggjandi sjúkdómar alveg yfir í ónæmisbælt ástand sem getur verið innan þess flokks. Innan flokksins sem slíks er líka mikill munur. Það er ekki mikið um einstaklinga sem eru í mjög mikilli áhættu í þessum hópi smitaðra,“ segir Runólfur.

Hann segir að staðan á göngudeildinni hafi verið viðráðanleg síðustu daga.

„Eftir því sem dögunum fjölgar og það koma ekki upp mörg tilvik alvarlegra veikinda þá er það jákvætt merki en það er enn ákveðin óvissa til staðar. Þessi vika og fram á helgina mun skýra málið enn betur.“

„Við viljum draga úr þessum mikla fjölda smita vegna þess …
„Við viljum draga úr þessum mikla fjölda smita vegna þess að viljum ekki að það breiðist út smit hérna innan spítalans,“ segir Runólfur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Smitfjöldinn aðalvandamálið

Runólfur segir að göngudeildin hafi ekki tekið eftir alvarlegri veikindum hjá óbólusettum en bólusettum, enda séu langflestir þeirra sem eru smitaðir bólusettir. Það óbólusetta fólk sem er í eftirliti Covid-göngudeildar Landspítala er flest í yngri kantinum og hefur því staðið veikindin ágætlega af sér.

Hann bendir á að þótt göngudeildin skilgreini flesta sjúklinga sína með væg einkenni séu langflestir í þeim hópi með einhver einkenni Covid-19.

„Sumu af þessu fólki líður illa, þetta eru veikindi þótt við flokkum einkenni þeirra sem væg,“ segir Runólfur.

Runólfur segir að heilt yfir sé göngudeildin með góða stjórn á hópnum. Þeir sem hafa verið merktir sem gulir hafa verið á öllum aldri.

„Aðalvandamálið er þessi mikli fjöldi smita. Við viljum draga úr þessum mikla fjölda smita vegna þess að viljum ekki að það breiðist út smit hérna innan spítalans. Hið sama á við um aðrar heilbrigðisstofnanir og öldrunarstofnanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert