Ari Páll Karlsson
Þjóðhátíð 2021 verður frestað og er áætlað að hún verði haldin í einhverri mynd í lok sumars. Áætlað er að endanleg ákvörðun muni liggja fyrir í síðasta lagi 14. ágúst.
Þetta kom fram í tilkynningu þjóðhátíðarnefndar í gærkvöldi. „Það er okkar trú að hægt verði að halda hátíðina í einhverri mynd síðar í sumar,“ segir í tilkynningunni en þar er auk þess talað um mikilvægi hátíðarinnar fyrir barna- og unglingastarf ÍBV.
Fólk sem á miða á Þjóðhátíð mun standa frammi fyrir þremur kostum: Að fá miðann endurgreiddan, flytja miðann yfir á Þjóðhátíð 2022 eða einfaldlega styrkja ÍBV um andvirði miðans.
Endurgreiðslur á þjóðhátíðarmiðum munu hefjast í upphafi ágústmánaðar, en endurgreiðsla á miðum í Herjólf sem voru keyptir á dalurinn.is fylgja beiðnum um endurgreiðslu á miðum. Þeir sem vilja aftur á móti enn þá ferðast til Eyja um verslunarmannahelgina eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Herjólfs til þess að gera nýja bókun, segir í tilkynningunni.