Þrjú útköll með skömmu millibili við gosstöðvarnar

Björgunarsveitarmenn halda á annarri af konunum tveimur sem meiddust á …
Björgunarsveitarmenn halda á annarri af konunum tveimur sem meiddust á ökkla. mbl.is/GRE

Björgunarsveitin Þorbjörn hafði í nógu að snúast fyrr í dag þegar hún fékk með stuttu millibili boð um að sinna þremur erlendum ferðamönnum sem höfðu meitt sig á gosstöðvunum.

Fyrst barst sveitinni boð um að sinna konu sem hafði dottið og meitt sig á ökkla á leið A við Stórhól, sem er á austanverðu Fagradalsfjalli, að sögn Boga Adolfssonar, formanns Þorbjörns.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var þar á ferðinni frönsk ferðakona sem hafði komið í sérstaka ferð hingað til lands ásamt manni sínum til að sjá eldgosið. Ætluðu þau að fljúga aftur út til Frakklands á morgun.

mbl.is/GRE

Þegar búið var að hlúa að konunni barst björgunarsveitinni annað útkall vegna annarrar konu sem hafði dottið á leið C. Hún meiddist líka á ökkla og voru báðar konurnar fluttar á slysadeild.

Þegar sveitin var að ljúka við að hlúa að konunni barst henni tilkynning um að erlendur ferðamaður hefði meitt sig á höfði á gönguleið B. Það útkall var síðan afturkallað þar sem ekki var þörf fyrir aðstoð.

Spurður segir Bogi að allir ferðamennirnir sem meiddu sig hafi verið ágætlega búnir. Hann bætir við að liðsmenn björgunarsveitarinnar Ægis frá Garði hafi einnig veitt aðstoð. Þeir höfðu verið á ferðinni á gosstöðvunum ásamt starfsmanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

mbl.is/GRE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert