Virðast betur varðir og fara því ekki í sóttkví

Þrjú til fjögur tilvik endursýkinga hafa komið upp.
Þrjú til fjögur tilvik endursýkinga hafa komið upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem sýkst hafa af Covid-19 og jafnað sig virðast mynda betra mótefnasvar en þeir sem hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19 og er fyrrnefndi hópurinn því ekki sendur í sóttkví þrátt fyrir útsetningu, að sögn yfirmanns smitrakningarteymis.

„Þrátt fyrir að það hafi örfáar endursýkingar komið upp er sjaldgæft að fólk sem sýkist myndi ekki mótefni,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.

Þrjú til fjögur tilvik endursýkinga hafa komið upp hér á landi og hafa mjög fá slík tilvik verið greind á heimsvísu.

„Auðvitað er þetta alltaf eitthvað að breytast en það hefur ekki þótt ástæða til þess að senda þá [sem hafa greinst með Covid-19 og jafnað sig] í sóttkví,“ segir Jóhann Björn í samtali við mbl.is.

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis alamannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis alamannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Fólk þurfi að grípa til ráðstafana sjálft

Þeir sem eru bólusettir eru sendir í sóttkví ef þeir eru útsettir fyrir smiti.

Jóhann Björn segir að það sé gríðarlega mikið álag á rakningarteyminu sem stendur, verið sé að bæta við fólki og í einhverjum tilvikum hafi fólk verið kallað inn úr sumarleyfum.

„Við náum ekki að hringja í alla sem eiga að fara í sóttkví. Fólk þarf að fara að fóta sig í þessu og grípa til ráðstafana sjálft. Ef þú veist að þú hefur orðið útsettur fyrir smiti, hefur hitt einhvern smitaðan þá eru líkur á því að þú veikist og smitir aðra ef þú einangrar þig ekki. Því á fólk bara að fara í sóttkví ef það veit af því að það hafi hitt smitaðan einstakling, það þarf ekki að láta segja sér það tvisvar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert