Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og starfandi forstjóri á Landspítalanum, segir hættustig hafa verið sett á vegna þess að spítalinn var þegar byrjaður að starfa eftir þeim verkferlum. Hún hefur áhyggjur af álagi á spítalanum og þá kannski helst vegna þess mikla álags sem starfsfólk er undir.
Spurð hvernig spítalinn sé búinn undir að innlögnum gæti fjölgað segir hún: „Þetta er bara verkefnið sem vikan hefur farið í. Við hækkum viðbúnaðarstigið í „hættustig“ í raun vegna þess að við vorum nú þegar byrjuð að vinna eftir þeim ferlum. Við lítum bara á það sem ábyrga stöðu í ljósi reynslunnar að undirbúa spítalann fyrir auknar innlagnir.“
Hún bendir þó á að þrátt fyrir að „hættustig“ kunni að hljóma óþægilega og á þann veg að spítalinn ráði ekki við stöðuna, þá sé það ekki raunin. Það er ekki fyrr en spítalinn lýsir yfir „neyðarstigi“ sem segja megi að verkefnið sé orðið spítalanum ofviða.
„Við fengum margar innlagnir í gær og reynslan segir okkur einmitt þetta, að tími líður frá því að fólk smitast og þar til það veikist.“ Hún segir einnig að margt bendi til þess að það verði færri gjörgæsluinnlagnir sökum bólusetninga en bendir á að vegna þess hve dreifð veiran sé í samfélaginu sé hún nú komin inn í viðkvæmari hópa sem sluppu betur í síðustu bylgjum. Þeir einstaklingar séu að leggjast inn á spítala núna.
Sigríður segir tíu gjörgæslupláss á spítalanum eins og staðan er núna. Ekki séu miklar áhyggjur af tækjabúnaði s.s. öndunarvélum og öðru slíku. „Vélarnar sjálfar eru ekki takmarkandi þáttur. Það eru frekar hjúkrunarfræðingarnir sem eru sérhæfðir til þess að nota vélarnar sem eru af skornum skammti. Þess vegna getum við þurft að kalla fólk inn úr leyfi, sem er miður.“
Spurð út í áhyggjur fólks af ofálagi sem geti myndast á spítalanum segir Sigríður aðaláhyggjurnar núna snúa að því mikla og langvarandi álagi sem starfsfólk spítalans hefur upplifað. „Þetta reynir verulega á starfsfólk. Það upplifir náttúrlega ákveðna áhættu sem fylgir þessu starfi. Til dæmis áhættan við að smitast eða smita vini, fjölskyldu og sérstaklega sjúklinga vegna starfsins.“
Þrátt fyrir víðtækar bólusetningar í landinu og að búast megi við færri alvarlegum veikindum segir Sigríður þó stöðuna snúna. Hún segir: „Vegna þess hve útbreidd veiran er í samfélaginu er komin upp sú hætta að starfsfólkið okkar smitist og við höfum verið að lenda í því. Síðustu vikuna hafa komið upp smit meðal starfsmanna á líklega átta klínískum deildum auk stoðþjónustu, s.s. í eldhúsi.“
Hvað varðar framhaldið segir Sigríður: „Okkar bíður bara það verkefni að ákveða hvernig eigi að byggja upp heilbrigðiskerfið til lengri tíma. Það snýr fyrst og fremst að innviðum og mannafla.“
Það er þó enginn uppgjafartónn í starfsmönnum spítalans að sögn Sigríðar. „Við vinnum þetta bara sem verkefni sem við munum leysa, það þýðir ekkert að leggjast í fósturstellinguna og bugast. Hér er ótrúlega magnað starfsfólk sem er vel að sér, hugmyndaríkt, úrræðagott og ótrúlega skuldbundið verkefninu.“
Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Runólfi Pálssyni, yfirlækni á smitsjúkdómadeild Landspítalans, nú í kvöld er 921 í umönnun covid-19-göngudeildar spítalans. „Þetta er bara eins og verið hefur. Eins og staðan er núna þá eru 12 einstaklingar sem teljast gulir og því með nokkur einkenni vegna veirunnar, en fjórir eru rauðir með mjög mikil einkenni,“ segir Runólfur. 905 eru því með væg einkenni og teljast grænir eða rúm 98% þeirra sem göngudeildin annast.