Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar, segir nefndina skoða það að sækja um ríkisstyrk eftir að þurfti að fresta Þjóðhátíð í Eyjum annað árið í röð eftir að innanlandstakmarkanir voru hertar í síðustu viku.
„Það er ómögulegt að segja hvort við fáum einhvern styrk frá ríkinu, en okkur fyndist það eðlilegt þegar lokað er á hátíðina með viku fyrirvara. Það er stjórnvaldsaðgerð og því hljóta yfirvöld að hafa tekið áhrifin af henni með í reikninginn. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa gert það,“ segir hann við í umfjöllun um mál þessi í Viðskiptamogganum í dag.
ÍBV fékk enga ríkisstyrki í fyrra vegna tekjutapsins sem varð en á móti kom að félagið fékk styrki úr ýmsum áttum í fyrra; Vestmannaeyjabær styrkti það um 20 milljónir króna og einnig nokkur stöndug fyrirtæki í Vestmannaeyjum. „Þessir styrkir komu okkur fyrir horn í fyrra og við náðum rétt svo að lifa þetta af. Það óskuðu einhverjir í fyrra eftir því að flytja miðana sína í staðinn fyrir endurgreiðslu svo félagið gat flotið áfram á þeim aurum.“
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir mikið áfall fyrir samfélagið allt að hátíðinni skuli vera frestað annað árið í röð.