Tveir jarðskjálftar, 3,9 stig og 4,5 stig að mati Veðurstofu Íslands, urðu í Bárðarbungu í fyrrakvöld. Sá minni varð klukkan 19.02 og sá stærri klukkan 22.12. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir að bandaríska jarðfræðistofnunin USGS hafi metið stærð jarðskjálftanna vera 4,3 og 4,8.
„Þetta er framhald af syrpu sem hefur verið í gangi síðan 2015,“ sagði Páll í gær. Hann sagði að dregið hefði úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þegar Holuhraunsgosinu (ágúst 2014- febrúar 2015) lauk. Svo jókst hún næstu ár á eftir, þar til dró heldur úr henni síðustu ár. Páll sagði að líklega stöfuðu þessir jarðskjálftar af landrisi.
„GPS mælingar sýna að Bárðarbunga hefur verið að þenjast út. Það eru tvær hugmyndir á lofti um hvað valdi því. Annars vegar að þar sé kvikusöfnun og að Bárðarbunga sé að búa sig undir næsta gos. Hin er að hún sé að jafna sig eftir átökin í eldgosinu. Þrýstingurinn hafi lækkað svo mikið að nú dragi hún að sér kviku. Það er ekki beinlínis auðvelt að gera upp á milli þessara tveggja kenninga,“ segir Páll í umfjöllun um þróunina á Bárðarbungu í Morgunblaðinu í dag. Sé hún að undirbúa eldgos þá eru þessir jarðskjálftar teikn um það. „En það er ekkert að fara að gjósa á morgun eða hinn,“ sagði hann enn fremur.