Þeir tveir sem liggja á gjörgæslu vegna Covid-19 eru óbólusettir. Yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala segir áberandi að veikindi þeirra sem eru óbólusettir gegn Covid-19 séu alvarlegri en þeirra sem eru smitaðir og eru bólusettir.
Í morgun voru 15 merktir gulir, þ.e. með svæsnari einkenni Covid-19, og þrír rauðir, þ.e. með alvarleg einkenni Covid-19, í eftirliti göngudeildarinnar. Sem stendur eru engar innlagnir yfirvofandi en það má þó gera ráð fyrir að sú staða breytist.
„Það er bara verið að meta þessa einstaklinga núna nánar. Miðað við stöðuna síðustu daga er ekki ólíklegt að það verði innlagnir áfram,“ segir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar.
Hann gat ekki staðfest að þeir sem liggja á gjörgæslu séu óbólusettir enda er það ný stefna spítalans að gefa slíkt ekki út. Það hafði þó áður verið staðfest í samtali við Vísi.
Tíu liggja inni á Landspítala með Covid-19.
Kemur þessi mikli fjöldi innlagna ykkur á óvart?
„Við áttum svo sem von á því að eftir því sem lengra var liðið frá smiti svona stórs hóps að einhverjir þeirra myndu veikjast umtalsvert og jafnvel þurfa spítalainnlögn. Það er óljóst núna hve mikið umfangið verður.“
Runólfur segir að reynslan undanfarið, þar sem bæði bólusettir og óbólusettir hafa smitast, sýni að óbólusettir verði veikari af Covid-19 en bólusettir.
„Veikindin hjá þessum fullbólusettu eru ekki eins alvarleg. Ég held að það sé áberandi,“ segir Runólfur.