112 kórónuveirusmit hafa greinst innanlands eftir sýnatöku gærdagsins. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á covid.is.
32 voru í sóttkví við greiningu og 80 utan sóttkvíar.
Eitt virkt smit greindist á landamærunum. Viðkomandi er óbólusettur.
Alls eru nú 1.072 í einangrun og 2.590 í sóttkví. Tíu eru á sjúkrahúsi. Í gær voru tveir á gjörgæslu, hvorugur fullbólusettur.
Í gær greindust 104 smit við einkennasýnatöku og átta smit við sóttkvíar- og handahófsskimanir. Af þeim sem greindust í gær eru 73 fullbólusettir, bólusetning er hafin hjá tveimur og 35 eru óbólusettir.
Mikill fjöldi sýna hefur verið tekinn síðustu daga og er ekki útilokað að fleiri smit eigi eftir að greinast eftir sýnatöku gærdagsins. Hafi fleiri smit greinst í gær koma þau fram í uppfærðum tölum á morgun.
3.074 sýni voru tekin við einkennasýnatöku í gær. 367 sýni voru tekin á landamærunum og 1.289 sýni voru tekin við sóttkvíar- og handahófsskimanir. Hlutfall jákvæðra sýna hækkar lítillega á milli daga og er nú 3,38% en var 3,23% í fyrradag.
Í fyrradag höfðu 118 smit greinst þegar tölur voru uppfærðar. Nú þegar tölur fyrir miðvikudag hafa verið uppfærðar liggur fyrir að 129 greindust í heildina. Er það mesti fjöldi smita frá því að faraldurinn hófst hér á landi.
Fréttin hefur verið uppfærð.