Tjaldsvæðinu á Hömrum hefur verið skipt upp í fjögur sóttvarnahólf og geta mest 200 gestir dvalið í hverju hólfi. Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti tekur um 200 gesti og er því eitt sóttvarnahólf.
Hertar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 hafa mikil áhrif á starfsemi tjaldsvæða bæjarins og getu þeirra til að taka á móti gestum.
Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Hamra, útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta, segir að búist sé við þó nokkrum fjölda gesta um helgina þó svo að hátíðinni Ein með öllu hafi verið aflýst.
„Það koma alltaf margir gestir á tjaldsvæðin þótt ekki sé nein sérstök hátíð í gangi. Það verður ýmislegt um að vera í bænum,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.