Ákveðið hefur verið að snúa aftur til þess að leggja mat á styttingu einangrunar á einstaklingsgrundvelli, út frá því hvernig veiran hefur hegðað sér.
Munu því bólusettir einstaklingar sem teljast heilsuhraustir og hafa verið einkennalausir í þrjá daga aðeins þurfa að vera í einangrun í tíu daga en ekki í tvær vikur líkt og áður.
Einangrun smitaðra einstaklinga hefur miðast við fjórtán daga og sjö daga frá síðustu einkennum frá því að Alpha-afbrigði veirunnar var í umferð í vor, að sögn Kamillu S. Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnarlæknis. Verður það áfram staðan fyrir þá sem ekki hafa þegið bólusetningu.
Reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um sóttkví og einangrun kveður á um þetta fyrirkomulag en í fylgiskjali hennar stendur hins vegar að „almennt hraustir einstaklingar með engin eða væg einkenni geti útskrifast úr einangrun ef komnir eru að minnsta kosti 10 dagar frá jákvæðu sýni og þeir hafa verið alveg einkennalausir í að minnsta kosti þrjá daga“.
Þarf læknir á göngudeild að meta þetta samkvæmt reglugerðinni en ákvæðið hefur ekki verið virkt frá því að bylgja Alpha-afbrigðisins herjaði og þar til nú, vegna tilmæla sóttvarnalæknis.
„Við höfum alltaf unnið þessar leiðbeiningar um einangrun í samvinnu við læknana á Landspítalanum. Pössum að þeir séu sammála því sem við mælum með og þeir passa að við séum sammála því sem þeir vinna eftir,“ segir Kamilla um þá stöðu að læknar telji sig þurfa að leita samþykkis sóttvarnalæknis við mat á því hvort stytta megi einangrunartíma heilsuhraustra einstaklinga.
Kamilla fékk beiðni lækna á göngudeild um að stytta einangrunartíma heilsuhrausts einstaklings í dag en vildi ekki gefa grænt ljós strax.
Hún vildi fyrst afla sér gagna frá Sóttvarnarstofnun Evrópu um hvort óhætt væri að stytta einangrunartímann í ljósi þess hve erfitt Delta-afbrigðið er viðfangs í tengslum við útbreiðslu.
„Þetta snýst fyrst og fremst um að fólk sé ekki ennþá smitandi þegar það er losað úr einangrun, við vitum að Delta er jafnvel smitandi hjá einkennalausum,“ segir Kamilla.