Ósk Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um að þing yrði kallað saman varð ekki að veruleika. Hún sendi erindi þess efnis á aðra þingflokksformenn og aðeins þingflokkar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar tóku undir með Ingu.
Vilja meirihluta þingmanna þarf til þess að þing sé kallað saman.
Inga vildi að þing yrði kallað saman til þess að ræða ástand kórónuveirufaraldursins á Íslandi. Hún segir fjölda smita, full farsóttarhús og brostnar vonir varðandi veirufrítt samfélag gefa fullt tilefni til þess að kalla þing saman.
„Þetta lýsir bara alveg ótrúlegri lítilsvirðingu gagnvart þjóðinni miðað við þá erfiðu stöðu sem við erum í í dag,“ segir Inga í samtali við mbl.is.
„Við erum komin hér með á annað þúsund Covid-sýkta einstaklinga, við erum komin með pakkfull farsóttarhús og Rauði krossinn kallar eftir viðbrögðum. Þetta er bara alvarlegt og við eigum bara betra skilið en stjórnvöld sem sýna okkur enga virðingu.“
Flokkur fólksins vildi upphaflega koma saman til þess að ræða stöðuna á kórónuveirufaraldrinum, en aðrir flokkar bættust við, eins og fyrr segir, og bættu við sínum áherslum: Píratar vildu ræða tillögur um breytingar á stjórnarskrá líka og Viðreisn og Samfylking vildu að þingfundur yrði haldinn eftir að fastanefndir þingsins gætu safnað gögnum sem kæmu þá til meðferðar þingsins.